Svona geta orð haft áhrif

Ljósmynd/Unsplash

Við könnumst flestöll við það að geta verið fljót á okkur og vanda ekki endilega alltaf orðin okkar. Orð hafa ótrúlega mikið vægi og eru máttug, því er mikilvægt að vera meðvituð um það sem við segjum og mikill kraftur er fólginn í því að temja sér jákvæðni þegar við tölum. Ég rakst á skemmtilega grein sem segir frá fimm auðveldum leiðum til þess að notast við hlý og jákvæð orð í samskiptum og hvernig það getur auðveldað okkur lífið.

  1. Í tölvupóstum tengdum vinnunni okkar. Það eitt að nota kveðju í vingjarnlegum og hlýjum dúr getur hjálpað okkur að byggja betri sambönd.
  2. Í dagbók. Að skrifa niður hluti sem gleðja okkur, sem við erum þakklát fyrir og/eða stolt af getur veitt okkur sjálfum jákvæða athygli sem er mikilvæg fyrir sálarlífið.
  3. Í samræðum. Að notast við jákvæð orð sem undirstrika það að þú sért að hlusta á þann sem þú spjallar við getur skipt sköpum í því hvernig samtalið endar, sérstaklega ef samtalið er krefjandi.
  4. Í speglinum. Stundum þarf maður að hvetja sig áfram og segja við sjálfa/n sig að þú getir og ætlir. Að temja sér þetta fær mann svo til þess að halda jákvæðni og góðmennsku í degi sínum.
  5. Sem stuðning. Það er hægt að sýna hreinskilni þegar maður veitir stuðning og gefur ráð án þess að draga einhvern niður með neikvæðni.

Þetta eru allt áhugaverðir og skemmtilegir punktar sem ég persónulega hlakka til að temja mér í daglegu lífi.

Æðibit­inn DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Æðibita.

mbl.is