„Þetta verður alveg skráð í sögubækurnar“

Páll Óskar er spenntur fyrir sínu fyrsta alvöru Pallaballi eftir …
Páll Óskar er spenntur fyrir sínu fyrsta alvöru Pallaballi eftir samgöngubann sem haldið verður á Spot á laugardag. Ljósmynd/Aðsend

„Hér er um að ræða dansiball sem ég mun aldrei gleyma svo lengi sem ég lifi,“ segir Páll Óskar en hann mun halda klassískt Pallaball á nýjum og endurbættum Spot á laugardaginn, 4. júlí, frá 20 til 23.

Verður þetta í fyrsta sinn sem hann heldur ball svo snemma til að fylgja tilmælum yfirvalda vegna kórónuveirufaraldurs og eru aðeins 500 miðar í boði af sömu ástæðu en Páll mun hita upp fyrir ballið með Pallaballi í beinni útsendingu á K100 frá 14 til 16 sama dag.

„Ég hvet alla sem mögulega geta til að taka þátt í þessari tilraun með mér,“ segir Páll og bætir við að ekkert verði til sparað á ballinu sem verður að öllu leyti eins og hið klassíska Pallaball sem allir þekkja.

Útsendinging á K100 partur af ballinu

„Útsendingin á K100 er partur af ballinu. Þetta er bæði upphitun og áminning um hvað þetta byrjar snemma. Það verður örugglega einhver í sturtu að hlusta á útvarpið á meðan,“ segir poppstjarnan kímin en Páll kveðst finna fyrir mikilli þörf til að fá loksins að hrista sig, svitna og syngja með. 

„Við Íslendingar erum ekkert vön þessu, við erum vanari milli 8 og 11 að vera sitjandi á rassinum í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu, Hörpunni og Háskólabíói eða á fallegum veitingustöðum. Við erum að njóta matar eða lista á þessum tíma,“ bendir Páll á. „Nú er ég búin að vera að spila á dansiböllum í hátt í 30 ár en ég hef aldrei í lífi mínu spilað á dansiballi milli 20 og 23 á laugardagskvöldi,“ segir hann og bætir við: „Þetta verður alveg skráð í sögubækurnar.“

Fara með „falleg fiðrildi í maganum“ heim

Páll Óskar segir mikilvægt að gleyma ekki þeim verðmætum sem felist í því að fá að hitta annað fólk, fara á trúnó og dansa saman. „Gleðjast saman og finna fyrir orkunni sem myndast þegar ballið stendur sem hæst. Það eru ákveðin verðmæti í þessu fyrir okkur Íslendinga.

Ég get allavega lofað því að fólk fer heim með falleg fiðrildi í maganum af Pallaballinu.“

Hægt er að nálgast miða fyrir ballið á tix.is og eru aðeins 500 miðar í boði.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist