Oft með meira jafnvægi eftir rauðvínið

Hægt verður að drekka rauðvín og stunda jóga í veðurblíðunni …
Hægt verður að drekka rauðvín og stunda jóga í veðurblíðunni með Jónu Dögg jógakennara í kvöld. Facebook/Yona.Yoga

„Við ætlum að byrja sitjandi og af því að þetta er með rauðvínsglasi þá byrjum við á að taka einn lítinn sopa af rauðvíninu og finna hvernig það er þegar það er nýkomið úr flöskunni,“ sagði Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir jógakennari en hún verður með sérstakt rauðvínsjóga í kvöld. Hún mætti í Ísland vaknar í morgun og ræddi þar um kvöldið.

Sagði Jóna að í rauðvínsjóga felist einfaldlega að drukkið er eitt glas af rauðvíni á meðan stundaðar eru rólegar jógaæfingar úti í náttúrunni en jógatíminn verður haldinn í lautinni við Hofstaðabraut í Garðabæ á milli klukkan 18:00 og 19:00. 

Spurð út í það hvort fólk sé ekki að missa jafnvægið í jógaæfingunum með því að drekka rauðvín með þeim svaraði Jóna Dögg neitandi. „Ekki endilega, sérstaklega þegar þau drekka svona lítið,“ sagði hún. „Reynslan hefur sýnt mér að fólk er oft bara með meiri „balans“,“ bætti hún við kímin.

Rauðvín hollt í hófi

Jóna Dögg lagði áherslu á að aðeins eitt glas af rauðvíni verði í boði og því sé fólk ekki að fara að verða drukkið í tímanum. „Rauðvín er hollt fyrir mann ef maður drekkur það hóflega,“ sagði hún. „Það sem telst hóflegt magn er bara eitt glas. Sérstaklega fyrir konur. Kannski tvö glös fyrir karlmenn. Það er mikið af andoxunarefnum í rauðvíninu sem geta verið rosalega góð fyrir okkur. Þau geta komið í veg fyrir krabbamein og alls konar veikindi,“ benti hún á.

Hlustaðu á viðtalið við Jónu Dögg í spilaranum hér að neðan en hægt er að nálgast upplýsingar um tímann á viðburði Jónu Daggar á Facebook.mbl.is