Karlmenn oft hræddir við „sterkar konur“

Ellen Lind, ein sterkasta kona Íslands, fór létt með að …
Ellen Lind, ein sterkasta kona Íslands, fór létt með að lyfta Jóni Axel og hélt á honum eins og ungabarni í beinni útsendingu á K100 í morgun. Afrekið uppskar mikinn hlátur í stúdíóinu. Skjáskot

Ellen Lind Ísaksdóttir og Ragnheiður Ósk Jónasdóttir munu keppa um titilinn Sterkasta kona Íslands í ár en keppnin mun fara fram á Akureyri þann 15. ágúst næstkomandi. Þær mættu í Ísland vaknar í gærmorgun og ræddu þar um keppnina og hvað felst í því að vera „sterk kona“ en þær viðurkenndu meðal annars að karlmenn væru oft hræddir við slíkar konur.

Þær viðurkenndu að margar konur væru hræddar við að taka þátt í keppninni og vildu hvetja fleiri til að taka af skarið og skrá sig.

„Rennur ekki í manni blóðið“

„Algengustu svörin eru: Ég er ekki nógu sterk, eða ég þori ekki,“ sagði Ragnheiður Ósk.

Ragnheiður og Ellen hlógu að spurningu hlustanda K100 um það hvort sterkar konur væru almennt reiðar konur. „Ég get nú ekki sagt það, það rennur ekki í manni blóðið,“ sagði Ellen kímin í bragði og Ragnheiður sagðist almennt vera mjög glöð.

Ellen Lind fór létt með að lyfta Jóni Axel, einum af þáttastjórnanda Ísland vaknar, í beinni útsendingu en hægt er að sjá afrekið og viðtalið við Ellen og Ragnheiði í spilaranum hér að neðan.

Hægt er að skrá sig í keppnina Sterkasta kona Íslands með því að senda póst á sigfusfossdal@gmail.com.

mbl.is