Miley Cyrus slær í gegn á tómum fótboltavelli

Miley Cyrus nýtur sín vel á galtómum Rose Bowl vellinum.
Miley Cyrus nýtur sín vel á galtómum Rose Bowl vellinum. Skjáskot af Youtube

Tónlistarkonan og poppstjarnan Miley Cyrus flutti einstaka útgáfu af Bítlalaginu „Help“ frammi fyrir tómum fótboltavelli í Pasadena í Kaliforníu í myndbandi sem var streymt á laugardag. Var lagið flutt í sambandi við verkefnið Global Goal: Unite for Our Future sem er á vegum hjálparsamtakanna Global Citizen.

Átti verkefnið að vekja athygli á áhrifum kórónuveirunnar á jaðarsett samfélög. Greint er frá þessu á vef Rolling Stone.

„Fyrir mig eru töfrar þess að koma fram að deila og fagna tónlistinni með öðrum. Að vera umkringd fólki og finna orkuna frá því! Á þessum tímum COVID-19 komum við saman með öðrum hætti. Við sameinumst í því markmiði að gæta þess að ALLIR hafi aðgang að úrræðum til þess að enda þennan faraldur,“ sagði söngkonan á twittersíðu sinni um helgina. Sagðist hún jafnframt tileinka flutninginn öllum þeim sem ynnu hörðum höndum að því að fólk gæti komið aftur saman á stöðum eins og þeim tóma velli þar sem hún flutti lagið.

mbl.is