„Held að þeir hafi haldið að þetta væri „sirka“ rétt“

Hannes Óli stal heldur betur senunni í Eurovision-mynd Will Ferrel …
Hannes Óli stal heldur betur senunni í Eurovision-mynd Will Ferrel sem reiði Íslendingurinn Olaf Yohansson. Í myndinni æpir hann í sífellu á aðalpersónurnar að spila lagið„Ja Ja Ding Dong“ í einu eftirminnilegasta atriði hennar. Skjáskot

Hannes Óli Ágústsson stal sannarlega senunni sem reiði Íslendingurinn Olaf Yohansson eða „Ja Ja Ding Dong“-gaurinn eins og hann er nú oft kallaður í glænýrri Eurovision-mynd Wills Ferrells Eurovisi­on Song Contest: The Story of Fire Saga. Segist hann hafa fengið mikil viðbrögð fyrir leik sinn í myndinni.

Sagðist hann í samtali við Síðdegisþáttinn í vikunni ekki telja að handritshöfundar hefðu viljandi nefnt persónur í myndinni undarlegum nöfnum sem fæst gætu talist íslensk.

Til að mynda er augljóst að nafn persónunnar sem Hannes lék í myndinni er ekki hefðbundið íslenskt mannanafn en önnur nöfn Íslendinga sem koma fram í myndinni eru: Helka, sem hugsanlega er rangur ritháttur á nafninu Hekla, Victor Karlosson og Neils Brogus en nöfn aðalpersónanna eru Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir.

„Ég held að þeir hafi haldið að þetta væri „sirka“ rétt. Ég heyrði allavega sögu af setti af Íslendingi sem fór eitthvað að leiðrétta þetta og segja að þetta væru nú undarleg nöfn. Þá voru einhverjir í handritsteyminu sem voru bara: Ha? Nei, eru þetta ekki íslensk nöfn? Það var bara látið standa,“ sagði Hannes.

Stal senunni

Hannes sagði að persónan Olaf hefði fengið mikil viðbrögð en upphaflega átti hún aðeins að koma fram í einni senu. Það hefði þó breyst þegar Hannes ákvað að spila aðeins af fingrum fram með karakterinn sem er þekktastur fyrir að öskra á aðalpersónurnar og heimta lagið „Ja Ja Ding Dong“.

„Fyrsta daginn tókum við upp senu þar sem við vorum að horfa á hljómsveitina Fire Saga spila á tónleikum og [leikstjórinn] hvetur alla áhorfendur til að láta í sér heyra og segja „Play Ja Ja Ding Dong“. 

Þá ákvað ég að prófa bara að láta í mér heyra almennilega. Leikstjórinn kom svo fram þegar það var búið að skjóta og spurði hver hefði öskrað svona hátt áðan. Þá var það ég,“ sagði hann. „Þetta endaði síðan sem mjög áberandi atriði í myndinni.“

Staðfesti Hannes að annað atriði þar sem persónan Olaf eltir Lars, sem leikinn er af Will Ferrell, út úr félagsheimilinu hefði verið algjör spuni milli hans og Ferrells.

„Það var bara ákveðið á deginum,“ bætti hann við. 

„Get back in there right now and play „Ja Ja …
„Get back in there right now and play „Ja Ja Ding Dong“,“ æpir persónan Olaf Yohansson reiðilega í einu atriði í myndinni.

Hannes Óli lokaði viðtalinu með því að leika eftir hið eftirminnilega atriði þar sem Olaf Yohansson æpir á Fire Saga-hljómsveitina að spila lagið „Ja Ja Ding Dong“, en viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér að neðan.

mbl.is