Gerðu nýja útgáfu af Húsavíkurlaginu

Ármann Guðmundsson, Eyvindur Karlsson og Loftur S. Loftsson úr hljómsveitinni …
Ármann Guðmundsson, Eyvindur Karlsson og Loftur S. Loftsson úr hljómsveitinni Góða fólkið mættu í Ísland vaknar á K100 í morgun og fluttu þar sérstaka þjóðlagapoppútgáfu af laginu Húsavík úr eurovisionmynd Wills Ferrels.

Hljómsveitin Góða fólkið mun halda sína fyrstu tónleika á árinu en hún ákvað að gera þjóðlagapoppútsetningu af laginu Húsavík úr eurovisionmynd Wills Ferrells The Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga sem hefur sannarlega slegið í gegn víða. 

Þrír meðlimir Góða fólksins, Ármann Guðmundsson, Eyvindur Karlsson og Loftur S. Loftsson, mættu í stúdíóið til K100 í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun og fluttu þeir ábreiðuna af laginu sem vakti mikla lukku.

Munu þeir flytja lagið á tónleikum á Café Rosenberg annað kvöld, 2. júlí, en tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og er miðaverð 2.000 krónur. 

Sögðu þeir í viðtali í þættinum að þeir búist við því að einhver í salnum muni heimta að heyra lagið „Ja Ja Ding Dong,“, annan smell úr eurovisionmyndinni, að hætti persónunnar Olafs Yohanssonar úr myndinni, en það lag hefur einnig vakið mikla athygli. Þeir hafi þó ákveðið að gera ábreiðu af Húsavíkurlaginu vegna þess að stofnandi hljómsveitarinnar Ármann Guðmundsson er sjálfur stoltur Húsvíkingur.

„Ég get alveg öskrað: Spilið „Ja Ja Ding Dong“ sko,“ sagði Ármann kíminn í þættinum eftir að hafa verið sagður líkjast persónum í myndinni með sitt rauðbirkna hár og skegg. 

Hægt er að heyra flutning Góða fólksins á laginu Húsavík í spilaranum hér að neðan. 

 

mbl.is