„Maður var bara: Á ég að segja eitthvað?“

„Er verið að gera grín að Eurovision eða er verið …
„Er verið að gera grín að Eurovision eða er verið að upphefja Eurovision? Ég held að enginn geti almennilega svarað þessu,“ sagði Ólafur Darri Ólafsson, einn þeirra Íslendinga sem fór með hlutverk í Eurovision-mynd Will Ferrell. Samsett ljósmynd: mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var bara svo skemmtilegt. Sem Íslendingur var maður að sjá að íslenskan var svona mátulega góð og nöfnin svona næstum því íslensk. Maður var bara: Á ég að segja eitthvað? Er þetta viljandi?“ sagði leikarinn Ólafur Darri Ólafsson í Síðdegisþættinum á föstudag spurður út í eurovisionmynd Wills Ferrell Eurovisi­on Song Contest: The Story of Fire Saga en hann var einn þeirra Íslendinga sem fóru með hlutverk í myndinni. 

„Ég held að þetta sé bara nákvæmlega „effektið“ sem menn eru að leita eftir. Er verið að gera grín að Eurovision eða er verið að upphefja Eurovision? Ég held að enginn geti almennilega svarað þessu. En ég held að Fire Saga sé ekki besta band „ever“,“ sagði Ólafur Darri kíminn.

Ekki eins og Borat fyrir Kasakstan

Aðspurður sagðist Ólafur Darri ekki hafa áhyggjur af því að kvikmyndin myndi skemma neitt fyrir íslenskum túrisma eða, eins og komið hafi til umræðu, gera það að verkum að Ísland kæmi út eins og Kasakstan kom undan Borat-kvikmyndinni, en sú landkynning sem landið fékk í þeirri mynd er umdeild. Sagðist hann vonast til þess að myndin myndi þvert á móti verða til þess að landsmenn fengju „gommu“ af ferðamönnum í heimsókn.

Sería þrjú af Ófærð í vinnslu

Sjálfur hefur Ólafur Darri ýmislegt á prjónunum en hann stefnir á að vinna að nokkrum kvikmyndaverkefnum á Íslandi að minnsta kosti fram yfir áramót en hann segir lítil verkefni að fá erlendis vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Það er eiginlega ekkert byrjað úti í heimi. Ég ætla bara að halda mig á Íslandi fram yfir áramót,“ sagði Ólafur og staðfesti að hann væri nú að byrja að vinna að nýrri þáttaröð sem mun bera nafnið Vegferð auk bíómyndarinnar Sumarljós. „Svo er ég að fara að gera Ófærð númer þrjú,“ sagði hann.

Hlustaðu á allt viðtalið við Ólaf Darra í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir