Líkur á Eurovision-safni á Húsavík

„Þetta er náttúrulega meistaraverk. Það hljóta allir að geta sammælst …
„Þetta er náttúrulega meistaraverk. Það hljóta allir að geta sammælst um að það eru ekki margar myndir sem maður hefur séð um dagana sem eru að fara að slá þessari við,“ sagði Kristján Þór Magnússon sem er afar sáttur við þá kynningu sem Húsavík fær í Eurovision-mynd Will Ferrel. Samsett Ljósmynd

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings segir að verið sé að leggja drög að einhvers konar Eurovision-safni á Húsavík eftir Eurovision-mynd Will Ferrell Eurovisi­on Song Contest: The Story of Fire Saga sem frumsýnd var á Netflix á föstudag en hann staðfestir að Húsvíkingar muni gera Eurovision mjög hátt undir höfði framvegis í bænum. Hann greindi frá þessi í Síðdegisþættinum í gær og lýsti gríðarlegri ánægju sinni yfir myndinni sem er meðal annars tekin á Húsavík.

„Þetta er náttúrulega meistaraverk. Það hljóta allir að geta sammælst um að það eru ekki margar myndir sem maður hefur séð um dagana sem eru að fara að slá þessari við,“ sagði Kristján kíminn en hann sagðist vera mjög sáttur við kynninguna á bænum í myndinni sem hafi verið framar væntingum.

Segir Kristján að jafnframt hafi komið til umræðu að fjárfesta í rútunni sem notuð var í kvikmyndinni til að ferja Húsvíkinga til og frá bænum og færa strætóskýlið í myndinni, sem hann segir að sé varamannaskýli íþróttafélagsins Völsungs, á þann stað sem það sást í myndinni.

Býst ekki við mörgum Óskarstilnefningum

„Ég veit að það eru sennilega ekki margar Óskarstilnefningar að fara koma út á þessa mynd en það er sannarlega hægt að vinna með þetta í framhaldinu fyrir okkur og við munum alveg pottþétt gera Eurovision mjög hátt undir höfði, í það minnsta í aðdraganda keppninnar hvert ár núna framvegis,“ sagði sveitarstjórinn.

Spurður út í það hvort Eurovision-safn væri væntanlegt á Húsavík svaraði Kristján að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hugmyndin hafi komið upp. „Það er held ég strax verið að leggja drög að einhverju slíku,“ sagði hann.

Hlustaðu á allt viðtalið við Kristján í spilaranum hér að neðan.

 mbl.is

#taktubetrimyndir