„Líkamanum ekki eðlislægt að láta þvinga sig”

Ásdís Inga Haraldsdóttir einkaþjálfari segir algengt að konur séu fastar …
Ásdís Inga Haraldsdóttir einkaþjálfari segir algengt að konur séu fastar í vítahring endalausra megrunarkúra sem mistakast í sífellu og enda oft með niðurrifi og ofáti. Ljósmynd/Shutterstock K100

„Við erum svo ótrúlega mörg búin að vera að vera að flokka mat sem góðan og slæman. Þegar við fæðumst inn í þennan heim fæðumst við í tengingu við hungur- og sedduboðin,“ sagði Ásdís Inga Haraldsdóttir einkaþjálfari í samtali við Ísland vaknar í gærmorgun en hún býður upp á námskeið fyrir konur sem vilja brjótast út úr vítahring endalausra átaka og megrunarkúra og vilja heilbrigðari lífsstíl.

„Ég á fjögurra ára gamlan strák. Þegar hann er búinn að fá nóg, hvort sem það er kleinuhringur eða snúður eða hvað sem hann er að borða, þá hættir hann að borða og fer frá borðinu. Það sem gerist svo er að við missum tenginguna við þessi hungur- og sedduboð og förum að láta aðra segja hvernig við eigum að borða og hvað við eigum að borða mikið og hvað við eigum að gera. Þá myndast þessi togstreita; þetta er bannað og þetta má.

Fólk heldur að ef það leyfir allan mat, ef allt er í lagi og það má allt þá verði það gjörsamlega stjórnlaust og viti ekkert hvað það eigi að gera og muni bara éta súkkulaði það sem eftir er,“ sagði Ásdís.

Sagðist hún hjálpa konum sem tengja við þann vítahring að vera alltaf að byrja á nýjum og nýjum kúrum. Algengt væri að konur byrjuðu á nýjum kúr á mánudegi en féllu svo á miðvikudegi eða fimmtudegi sem ylli því að þær rifu sig niður og misstu sig í óhollustu þar til þær byrjuðu í nýju átaki næsta mánudag.

„Það sem samfélagið og við öll einblínum á þegar við byrjum í nýju átaki er að við erum alltaf að hugsa: Ég þarf að létta mig. Það þarf að breyta þessari tölu á vigtinni,“ sagði Ásdís. „Það sem rannsóknir sýna er að það er ekki fitan sjálf sem veldur heilsukvillum og gerir fólki óleik heldur eru það lifnaðarhættir. Þannig að ég er að hvetja þær til að stunda hreyfingu, næra sig vel og líka allir hinir hlutirnir sem heilsa er. Því heilsa er ekki bara þetta,“ sagði hún.

„Það er líkamanum ekki eðlislægt að láta þvinga sig til að léttast. Honum líkar það ekki þannig að það sem hann mun gera er að hægja á kerfinu og búa til þráhyggjuhugsanir og þess vegna er fólk að finna sig á miðvikudegi, bara: Ég get þetta ekki!“

 Hlustaðu á allt viðtalið við Ásdísi í spilaranum.

mbl.is