Íslendingar um Eurovision-myndina: „Pissaði næstum á mig úr hlátri“

Will Ferrell virðist hafa slegið í gegn meðal Íslendinga.
Will Ferrell virðist hafa slegið í gegn meðal Íslendinga. Skjáskot af Youtube

Allir hlustendur sem hringdu í morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 í morgun virtust fremur jákvæðir ef ekki yfir sig hrifnir af Eurovision-mynd Will Ferrell, Eurovisi­on Song Contest: The Story of Fire Saga, þar sem hann fer með hlutverk Íslendings frá Húsavík ásamt Rachel McAdams. Einn hlustandi sagði þjóðarstoltið skína í gegn í myndinni og íslenskan hjá Pierce Brosnan virðist hafa slegið í gegn. 

„Ja Ja Ding Dong“ alla leið

„Hún er hallærislega skemmtileg. Hún er það fáránleg og hræðileg að hún er orðin algjör snilld. Það er bara „Ja Ja Ding Dong“ alla leið,“ sagði einn hlustandi í þættinum. 

Ein kona sem hringdi inn sagði myndina alveg æðislega. „Það skemmtilega við þetta er að maðurinn minn þolir hvorki Eurovision né Will Ferrell og hann sagði: Þetta er besta mynd með Will Ferrell sem ég hef séð,“ sagði hún. „Íslenskan hjá Pierce Brosnan var æðisleg. Ég pissaði næstum á mig úr hlátri.“

Annar hlustandi sem hringdi inn sagði að sér hefði þótt myndin það frábær að hann þurfti að stoppa myndina til að vera viss um að hann gæti notið hennar þegar hann væri ekki þreyttur eftir vinnu.

Flott kynning fyrir Húsavík

„Algjör snilld: Volcano Man. Ég tímdi bara ekki að sofna yfir þessari mynd eftir vinnuna. Íslenskan sem þeir tala þarna. Þetta er upplifun sko,“ sagði hlustandinn sem ætlar að njóta þess að klára myndina við tækifæri. 

„Við reynum okkar besta til að skilja en mér finnst þetta vera algjör snilld. Líka flott kynning fyrir Húsavík. Ég var þarna fyrr í sumar. Þetta er fallegur bær og frábært fólk sem býr þarna. Algjör perla, algjör gimsteinn,“ sagði hann.

Enn annar hlustandi sagði myndina ágæta en fannst þjóðarstoltið skína í gegn í henni.

„Mér finnst þjóðarstoltið koma svolítið fram í þessu,“ sagði hann og játaði því að „þetta reddast viðhorfið“ sem þekkt væri meðal Íslendinga kæmi skýrt fram í myndinni.

Umræður hlustenda um Eurovision-myndina má heyra hér að neðan.

mbl.is