Logi Bergmann fékk loks skýringu á hegðun Völu

Valgerður, 17 ára heimilisköttur Loga, hefur lent í ýmsu.
Valgerður, 17 ára heimilisköttur Loga, hefur lent í ýmsu.

Logi Bergmann ræddi heilsufar heimiliskattarins Valgerðar, sem kölluð er Vala, í Síðdegisþættinum á dögunum. Vala er 17 ára gömul læða sem hefur að sögn Loga lent í ýmsu en hún er nánast skottlaus eftir slys og hefur þurft að fara í aðgerð vegna krabbameins en nýlega fékk hún nýja greiningu.

Sagði Logi frá því að hann hefði leitað ráða hjá dýralækni eftir að Vala, sem fær blautmat í öll mál, fór að hegða sér undarlega eftir matmálstíma.

„Hún er uppi vælandi endalaust. Maður gefur henni að éta og hún étur það en svo eftir fimm mínútur er hún mætt aftur, mjálmandi endalaust,“ sagði Logi.

„Ég var að spyrja hana [dýralækninn] hvað þetta gæti verið og hún kom með skýringu: Hún er bara með katta-Alzheimer og bara man ekki eftir að hafa étið. Og hún sagði að þetta væri bara þekkt hjá köttum.“

Sagðist Logi einnig alltaf þurfa að opna sérstaklega baðherbergisdyrnar og skrúfa frá krananum fyrir Valgerði þar sem hún drykki aðeins rennandi vatn úr þeim krana. Var þar það sama upp á teningnum að kötturinn kom sífellt aftur og vildi láta skrúfa frá krananum rétt eftir að hún var búin að drekka.

„Við héldum að hún væri með einhvern sjúkdóm þar sem vökvaupptakan væri eitthvað skrítin. En nei. Hún er bara með elliglöp. Hún bara man ekki eftir að hafa fengið sér,“ sagði Logi og hló.

Hlustaðu á spjall Loga og Sigga í Síðdegisþættinum.mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir