Hvetja til iðkunar á smáspeki

Heimspekiprófessorinn Sigríður Þorgeirsdóttir og hönnuðurinn Katrín Ólína standa fyrir vefriti …
Heimspekiprófessorinn Sigríður Þorgeirsdóttir og hönnuðurinn Katrín Ólína standa fyrir vefriti um smáspeki: heimspeki litlu hlutanna. Ljósmynd samsett: Guðný Hrönn Antonsdóttir / Golli

Það er svo skemmtilegt að örva hugsanir okkar og einblína stundum á litlu hlutina. Það eitt að staldra við og finna fyrir þakklæti fyrir akkúrat þessa líðandi stund til dæmis fyllir hjartað af hlýjum tilfinningum. Við eigum það til að einblína á hluti og eyða óþarfa púðri í eitthvað sem skiptir ekki máli í stærra samhenginu, eins og það hvað öðrum finnst um okkur og jafnvel um persónuleg mál annarra sem koma okkur ekki við. En við höfum alltaf val um það hvert við setjum orkuna okkar og hvað við ákveðum að leggja áherslu á í hugsunum okkar.

Með þetta í huga þá langar mig að deila með ykkur ótrúlega skemmtilegri vefsíðu sem ég rakst á. Síðan heitir Minisophy og er vefrit um smáspeki. Smáspeki er heimspeki litlu hlutanna í lífinu og eru það heimspekingurinn og fyrrverandi heimspekikennari minn Sigríður Þorgeirsdóttir og hönnuðurinn Katrín Ólína sem standa að þessu vefriti.

Samkvæmt Instagram-reikningi vefsíðunnar boða þær nýja tegund af heimspeki þar sem heimspekin er færð í hversdagslegt og smátt samhengi. Með því að stunda þessa smáspeki getum við örvað núvitundina og tengst bæði sjálfinu okkar og heiminum betur. Þær munu koma til með að birta ýmis hugverk og smáspekilegar æfingar sem eru til þess fallnar að vekja smáspekinginn innra með okkur til lífsins samkvæmt þeim.

Þetta finnst mér alveg ótrúlega skemmtilegt og flott framtak. Tvær kjarnakonur með heilsteyptar og spennandi aðferðir sem verður áhugavert að prófa. Heilsteypt og gott fyrir sálarlífið. Ég hlakka mikið til að fylgjast með þessu og æfa mig í smáspeki. Litlu hlutirnir í lífinu sko!

Æðibit­inn DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Æðibita.

mbl.is