„Mikill sprengur“ í makaleitinni niðri í bæ

Hildur Birna Gunnarsdóttir uppistandari hefur lengi leitað að rétta manninum.
Hildur Birna Gunnarsdóttir uppistandari hefur lengi leitað að rétta manninum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var rosalega spennt hvað myndi gerast þegar allir losnuðu úr viðjum Covid,“ sagði Hildur Birna Gunnarsdóttir uppistandari í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar í vikunni en hún hefur verið opin um það sem hún kallar „verkefnið“ að finna rétta manninn.

Kvaðst hún hafa farið á fjöldamörg stefnumót á Zoom-forritinu í samkomubanninu en viðurkenndi það hefði ekki gengið sem best.

„Þetta gekk ekki og ég var svo spennt að komast út. Ég sá fyrir mér að með hækkandi sól og lækkandi veiru yrðu allir eins og flugan sem nagar fólk,“ sagði Hildur og vísaði þar til lúsmýsins.

„Ég hélt það yrði bara einhver rosa stemning en það er allt „crazy“ sko. Nú er maður farinn aftur í vinnuna og svo er maður að fara niður í bæ að finna. Ég vinn til fimm og það er lokað 11 og maður þarf bara að drífa sig svo mikið. Það er mikill sprengur. Þegar klukkan er kannski níu er það eins og klukkan þrjú áður fyrr,“ sagði Hildur kímin.

Sjálf sagðist hún hlakka til að fara að skemmta aftur en hún stefnir á að fara meðal annars austur á land með uppistand.

„Svo er líka það að fyrir austan eru hlutfallslega fleiri einhleypir karlar en annars staðar,“ sagði hún og uppskar hlátur.

Sjáðu allt viðtalið í spilaranum hér að neðan.

mbl.is