Eins og góður kaffibolli, nauðsynlegt einn á dag

Stutt er í að Karlotta nái markmiði sínu um að …
Stutt er í að Karlotta nái markmiði sínu um að ganga hundrað sinnum á Úlfarsfell en hún býst við að ná hundruðustu ferðinni 8. júlí. Samsett ljósmynd: K10/Wikipedia

„Það var í samkomubanninu þegar það var búið að loka sundlaugunum og líkamsræktarstöðvunum þá langaði mig að hafa einhvern fastan punkt á hverjum degi sem væri pottþétt hreyfing,“ sagði Karlotta Ósk í morgunþættinum Ísland vaknar á dögunum en hún stefnir á að ganga upp á Úlfarsfell hundrað sinnum. Hefur hún þegar gengið 86 ferðir frá því í samkomubanninu.

„Úlfarsfellið varð fyrir valinu. Þetta er þægilegt og skemmtilegt. Ég ætlaði náttúrulega bara að gera þetta á meðan samkomubannið væri í gildi og eftir 35 ferðir lauk því. En þá ákvað ég bara að fyrst ég væri byrjuð og þetta væri bara eins og góður kaffibolli, eiginlega bara nauðsynlegt einn á dag,“ sagði Karlotta.

Ljósmynd/Wikipedia

Sagði hún ýmsa aðila hafa farið með henni upp á fjallið á átakinu, kærasti hennar, fjölskyldumeðlimir og vinir.

„Margir vilja koma með þannig að þetta verður örugglega mjög skemmtilegt. Kannski í hundruðustu ferðinni hóar maður einhverju fólki saman,“ sagði hún.

Sjáðu allt viðtalið við Karlottu í spilaranum hér að neðan.

mbl.is