Með hátt í milljón niðurhöl á afmælinu

Helgi og Hjálmar hafa heldur betur slegið í gegn á …
Helgi og Hjálmar hafa heldur betur slegið í gegn á árinu með hlaðvarpið Hæ Hæ og ætla að halda upp á afmæli hlaðvarpsins í kvöld.

Hlaðvarpið „Hæ hæ: Ævintýri Helga og Hjálmars“ er nú orðið eins árs og ætla þeir Hjálmar Örn Jóhannesson og Helgi Jean Claessen að halda upp á afmælið með pompi og prakt með „Live“-sýningu í Gamla bíói í kvöld. Hlaðvarpið hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal landsmanna en þáttunum hefur verið hlaðið niður hátt í milljón sinnum á einu ári. 

Helgi ræddi um afmælið og viðtökurnar í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun.

„Það er fólk sem er búið að hlusta á 90 þætti með okkur sem er rosalega „intense“ því einn þáttur er um klukkutími og korter eða fimm korter. Þannig að einhver er búinn að eyða rosalega löngum tíma með okkur en sumir engum. Sumir vita ekkert hver maður er en sumir eru búnir að eyða öllum tíma í heiminum með okkur,“ sagði Helgi í þættinum.

Staðfesti hann að markmið þáttanna væri einfaldlega að skemmta fólki.

„Það er það sem að blasir við. Við viljum að fólk hlusti og líði betur. Ég veit að sumir setja okkur á til að sofna,“ sagði Helgi kíminn. 

Hægt er að nálgast miða á afmælisskemmtun „Hæ Hæ“ á tix.is.  

Hlustaðu á allt viðtalið við Helga í spilaranum hér að neðan.

mbl.is