Horfði á öll viðtölin við Björk fyrir hlutverkið

Rachel McAdams segist hafa horft á öll viðtöl sem Björk …
Rachel McAdams segist hafa horft á öll viðtöl sem Björk Guðmundsdóttir hefur verið í til að ná íslenska hreimnum fyrir Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga og viðurkennir að Björk hafi verið innblástur fyrir túlkun persónunnar Sigrit í myndinni. Samsett ljósmynd: Skjáskot/AFP

Rachel McAdams, aðalleikkonan í grínmynd Will Ferrell, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, sem væntanleg er inn á Netflix á morgun, kveðst hafa horft á öll viðtöl sem íslenska söngkonan Björk hefur farið í til að undirúa sig undir hlutverk sitt í myndinni. Þar leikur McAdams hina íslensku söngkonu Sigrit Ericksdóttir frá Húsavík en Björk virðist hafa verið mikill innblástur fyrir túlkun hennar á hlutverkinu.

Í viðtali Original Cin við leikkonuna kveðst hún aðspurð hafa nýtt sér ýmsar aðferðir til að ná íslenska hreimnum sem best en meðal annars fékk hún að sögn talþjálfara, nýtti sér þá vitneskju sem hún aflaði í ferð sinni til Íslands stuttu fyrir tökur og horfði á viðtöl við Björk.

„Ég fékk að nota svolítið af henni. Hún er með einhvern kjarna í sér sem mér fannst vera mjög líkur persónunni minni, Sigrit,“ sagði leikkonan.

Skemmtilegasta hlutverkið

McAdams staðfesti að hlutverk hennar sem hin íslenska Sigrit væri eitt skemmtilegasta hlutverk sem hún hefði tekið að sér. Sagði hún að henni hafi þótt sérstaklega skemmtilegt og krefjandi að þurfa að læra að spila á gítar og píanó og að ná íslenska hreimnum.

„Mig hefur alltaf dreymt um að taka þátt í söngleik en lífið fer ekki alltaf eins og þú býst við. Svo þetta var eins og barnæskudraumur minn að rætast,“ sagði hún.

Rachel McAdams nýtti ýmsar aðferðir til að ná íslenska hreimnum …
Rachel McAdams nýtti ýmsar aðferðir til að ná íslenska hreimnum í myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga þar sem hún leikur unga íslenska söngkonu sem tekur þátt í Eurovision ásamt Lars Erickssong sem leikinn er af Will Ferrell. Skjáskot af Youtube

Sagðist McAdams aðspurð ekki geta talið hversu oft hún hefði sungið lagið „Ja Ja Ding Dong“, eitt laganna í myndinni, með Will Ferrel.

„Ég er enn að syngja þetta lag í svefni. Það verður að eilífu partur af mér,“ sagði hún. Hún viðurkenndi þó að sjálf hafi hún ekki sungið í tónlistarmyndbandinu „Volcano Man“ heldur hafi það verið sænska söngkonan Molly Sandén.

Stiklu fyrir myndina sem frumsýnd verður á morgun á Netflix má sjá í spilaranum hér að neðan.

mbl.is