Tækni sem er tímabær á Íslandi

Minigarðurinn verður opnaður fyrir mánaðamót en Simmi Vill vonast til …
Minigarðurinn verður opnaður fyrir mánaðamót en Simmi Vill vonast til að ná að opna hann um helgina. mbl.is/Ómar Ljósmynd/Aðsend

Hægt verður að panta mat og drykki snertilaust með sérstökum örgjörvum sem tengjast snjallsímum í Minigarðinum, nýjum minigolfstað sem opna á fyrir mánaðamót. 

Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson eða Simmi Vill eins og hann er jafnan kallaður, er maðurinn á bak við Minigarðinn, en hann telur þetta vera í fyrsta sinn sem boðið er upp á slíka þjónustu af þessari stærðargráðu hérlendis.

„Þú leggur símann þinn upp að örgjörvanum og þá opnast pöntunarsíða í símanum þínum og þú getur þá bara pantað þér mat og drykk. Við komum svo með matinn til þín þegar þú ert búinn að panta og borga. Þetta verður líka á brautunum þannig að þú getur pantað þér drykki á braut þegar þú ert að spila minigolf,“ segir Sigmar í samtali við K100.is.

Fengu hugrekkið út af Covid

„Þetta er frekar djörf ákvörðun að hafa ákveðið að fara í þessa átt en það má segja að Covid hafi af mörgu leyti gefið okkur hugrekkið í þetta því að fólk er farið að nota svo mikið snertilaust og hefur tekið miklum framförum í að kaupa og panta á netinu. Þessi tækni er alveg tímabær á íslandi,“ segir hann.

„Þetta er mikill kostur þegar þú ert í svona stóru rými að þurfa ekki að bíða eftir þjónustu. Þú getur bara pantað þegar þú ert tilbúinn og svo kemur maturinn um leið og hann er er tilbúinn. Þetta flýtir að mörgu leyti fyrir þjónustunni.“

Sigmar segist vonast til þess að staðurinn, sem er rúmlega 1.900 fermetrar og rúmar tvo 9 holu minigolfvelli innandyra, veitingastaðinn Flavor, bar og sportbar, verði opnaður um helgina en segir enn ákveðna óvissu fylgja framkvæmdunum sem geri það að verkum að opnunardagsetning er ekki ljós.

„Það er margt sem er að smella saman. Þetta verður í fyrsta lagi vonandi um helgina en í síðasta lagi um mánaðamótin,“ segir hann.

mbl.is