„Skulum ekkert vera að þvælast þarna“

Mývetningurinn og rokkarinn Stebbi Jak staðfestir að landeigendur Grjótagjár hafi …
Mývetningurinn og rokkarinn Stebbi Jak staðfestir að landeigendur Grjótagjár hafi læst hluta gjárinnar í kjölfar jarðskjálftahrinu á svæðinu. Samsett ljósmynd: Valdís Þórðardóttir/Unsplash

Stefán Jakobsson eða Stebbi Jak, Mývetningur og söngvari rokkhljómsveitarinnar Dimmu, segir Mývetninga öllu vanir í sambandi við jarðhræringar. Sagðist hann í samtali við Ísland vaknar í morgun vera lítið stressaður sjálfur vegna jarðskjálftahrinu sem hófst norðaustur af Siglufirði á föstudag enda telji hann ólíklegt að skjálftarnir verði lífshættulegir en segir þá vera bara „meira vesen“. Ákvörðun hafi þó verið tekin um að loka hluta Grjótagjár og Vogagjár á meðan jarðskjálftahrinan gengur yfir.

„Við fáum svona restina af skjálftunum hingað uppeftir. Það eru búnir að koma tveir stórir og ég er búin að missa af þeim báðum. Ég var að brasa í garðinum og varð ekki var við þetta,“ sagði Stebbi.

Nóg að það sé bara einn fáviti

Hann staðfestir að fjölskylda hans sé hluti eigenda Grjótagjár sem er orðinn afar vinsæll áfangastaður erlendra ferðamanna á síðustu árum, sér í lagi eftir að gjáin var notuð sem tökustaður í Game of Thrones þáttunum, en varað hefur verið við því að fara í bæði Grjótagjá og Vogagjá á meðan jarðskjálftarnir ganga yfir.

„Þetta er sprungubelti, nokkuð langt. Tvær gjár sem voru búnar til um 1940,“ sagði Stebbi og bætti við að þetta hafi verið vinsæll baðstaður í gamla daga eða þar til allt hitnaði í eldgosahrinu sem varði á milli 1975 og 1984. Nú er bannað að baða sig í gjánni.

„Í kringum 1980 þá hitnaði þetta í einhverjar 70 gráður. Mannslíkaminn er ekki gerður fyrir það,“ sagði hann. „Svo hefur þetta farið að kólna og þá getur maður aðeins farið að nota þetta en svo er þetta bara því miður, eins og stundum gerist þegar eitthvað verður vinsælt, þá höfum við verið að fá marga ferðamenn, það koma kannski 1000 á dag og skoða þetta og það er alveg nóg að það sé bara einn sem er fáviti.

Búið að læsa hluta af gjánni

Listinn er endalaus af því sem er búið að gera þarna ofan í. Við erum ekkert að tala um piss og kúk en það er vissulega búið að gera slatta af því. Svo er fólk bara að elda þarna ofan í og jafnvel gista þarna ofan í og er svo bara með dónaskap ef einhver annar ætlar að koma,“ sagði Stebbi og sagði frá einu skipti þar sem 20 Bretar höfði tjaldað ofan í gjánni og orðið „grautfúlir“ þegar landeigendur vildu skipta sér af því.

„Við erum búin að læsa hluta af gjánni. Eigendur þessa lands eru með lykla og ráðstafa því hverjir fara niður því það þarf bara að stýra þessu,“ sagði hann en hann segist hafa litið niður í gjánna um klukkutíma eftir síðasta stóra skjálfta og séð þá að hún var orðin brúnrauð að lit. „Eitthvað hafði hrunið einhvers staðar undir yfirborðinu. Við skulum ekkert vera að þvælast þarna neinsstaðar núna.“

Stebbi segir þó að áhorfendur megi búast við jarðskjálfta þegar Dimma stígur á svið á tónlistarhátíðinni Úlfaldi úr Mýflugu sem haldin verður við Mývatn fyrstu helgina í júlí.

„Það er alltaf jarðskjálfti þegar Dimma stígur á svið,“ sagði hann kíminn. „Það verður jarðskjálfti, það er klárt. En við erum fyrir utan flugstöðina svo það verður enginn í hætta.“

Hlustaðu á allt viðtalið við Stebba Jak í spilaranum hér að neðan.

mbl.is