Dóra Júlía naut sín með kærustunni

DJ Dóra Júlía og kærasta hennar Bára nutu lífsins í …
DJ Dóra Júlía og kærasta hennar Bára nutu lífsins í botn á Snæfellsnesi um helgina en þær fóru meðal annars að Svörtuloftavita og nutu gullfallegs sólseturs. Dóra Júlía talaði um ferðina í ljósa punktinum á K100 í gær og þau áhrif sem náttúrufegurðin hafði á hana. Ljósmyndir/Aðsendar

„Ég fór út úr bænum um helgina sem er alltaf jafn gott fyrir sálarlífið. Ég og kærastan mín skelltum okkur á Snæfellsnesið og áttum alveg hreint dásamlega helgi í mikilli ró og yndislegu veðri,“ sagði DJ Dóra Júlía í ljósa punktinum á K100 í gær en hún naut lífsins með kærustu sinni Báru Guðmundsdóttur á ferðalagi um helgina.

„Á sunnudeginum rákumst við á svo skemmtilega konu sem gaman var að spjalla við. Við ræddum meðal annars um dásamlegt sólsetrið kvöldið áður og hún sagði eitt svolítið áhugavert sem fékk mig til að hugsa.

Kærustuparið fékk yndislega fagurt sólsetur á Snæfellsnesi.
Kærustuparið fékk yndislega fagurt sólsetur á Snæfellsnesi.

Við vorum nefnilega að ræða hvað sólsetrið hefði verið ofboðslega fallegt og hvað litadýptin hefði verið mögnuð og hún sagði að það hefði verið út af skýjunum, sem var eitthvað sem ég hafði ekki velt fyrir mér áður. Skýin litast svo glæsilega og gera sólsetrið mikilfenglegra en þegar það er alveg heiðskírt. Skýin eru eitthvað sem hafa svo oft farið fyrir brjóstið á mér og eflaust öðrum, og því fannst mér svolítið skemmtilegt að finna fyrir nýtilkomnu þakklæti á skýjunum þar sem ég er mikill sólsetursaðdáandi.

Það er nefnilega svo oft svoleiðis að maður pirrast yfir einhverju því það er ekki nákvæmlega eins og maður vill hafa það, þótt maður hafi ekkert vald yfir þeim. Heiðskír himinn og glampandi sól veitir gleði og þess vegna eru skýin ekki kærkomin. En svo áttar maður sig á þeirri fegurð sem skýin geta búið yfir, þeirri dýpt sem þau geta veitt og allt í einu getur maður endurskilgreint þau í hausnum á sér.

Ég held að þetta megi yfirfæra á svo margt. Hlutir sem maður getur ekki stjórnað geta oft virst vera eitthvað sem maður vil ekkert með hafa og maður ákveður kannski að þeir muni ekki veita manni gleði. Ef maður ákveður síðan að gefa þeim tíma og sjá hvert þeir fara með mann þá getur maður endað á að sjá hið fallegasta sólsetur!

Annars óska ég ykkur alls hins besta í dag. Farið vel með ykkur, hugsið vel um ykkur og aðra og leyfið kærleiknum að ráða förinni,“ sagði Dóra Júlía að lokum. 

Æðibit­inn DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Æðibita.

mbl.is