Óskarshafi gefur út lag með Emilíönu Torrini

Skjáskot af Youtube

Tónlistarkonan og Óskarsverðlaunahafinn Markéta Irglová, sem hefur verið búsett hér á landi í átta ár, gaf á laugardag út glænýtt lag, Quintessence, með íslensku söngkonunni Emilíönu Torrini. Lagið er samið í kórónuveirufaraldrinum og segir Markéta í færslu um lagið á tónlistarsíðu sinni að lagið hafi komið til hennar á þessum undarlegu tímum og að hún hafi fundið sig knúna til að deila því með heiminum. 

Emilíana Torrini, sem Markéta segir nána vinkonu sína, er aðalsöngkonan í laginu en hún tjáði sig um útgáfu lagsins á Instagram-síðu sinni.

„Megi þetta lag vera fley fyrir þig sem mun bera þig á vængjum sínum. Leggstu niður, lokaðu augunum, hlustaðu og gefðu þér leyfi til að sleppa öllu og lyftast upp,“ segir Markéta sjálf á ensku á tónlistarsíðu sinni.

Markéta, sem nefnd hefur verið „Hinn íslenski Óskarshafinn“ fyrir utan Hildi Guðnadóttur sem vann verðlaunin í ár, fékk verðlaunin sjálf fyrir lagið „Falling Slowly“ sem hljómaði í myndinni Once þar sem hún lék annað aðalhlutverkið.

 Hlusta má á lagið „Quintessence“ í spilaranum hér að neðan.

mbl.is