Líkur á 36 tæknisamfélögum utan jarðar

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar frá Háskólanum í Nottingham ættu um það …
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar frá Háskólanum í Nottingham ættu um það bil 36 siðmenningar vitsmunavera að vera til staðar í Vetrarbrautinni. M. KORNMESSER

Yfir 30 tæknisamfélög ættu að vera til í vetrarbrautinni okkar ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar sérfræðinga í Háskólanum í Nottingham. Gerðu sérfræðingar ráð fyrir því í rannsókninni að vitsmunalíf væri til staðar annarsstaðar en á jörðinni sem þróaðist með svipuðum hætti á öðrum plánetum og það hefur gert hér.

Reiknuðu þeir út að um það bil 36 samfélög vitsmunavera sem gætu verið með aðgang að þróaðri samskiptatækni ættu að vera til staðar í vetrarbrautinni.

Christopher Conselice, prófessor í stjarneðlisfræði í Háskólanum í Nottingham, sem leiddi rannsóknina, sagði að niðurstöðurnar hefðu leitt líkur að ákveðinn fjöldi virka siðmenninga ættu að vera til í vetrarbrautinni ef gert væri ráð fyrir að það taki um fimm milljarði ára fyrir vitsmunalíf að þróast á öðrum plánetum eins og á jörðinni.

„Hugmyndin er að horfa á þróunarsöguna en út frá stærð alheimsins,“ sagði Conselice.

36 er sá fjöldi samfélaga sem vísindamennirnir reiknuðu út að gætu verið búin að þróa með sér tækni til að senda út upplýsingar um tilvist sína út í geim eins og jarðarbúar hafa gert.

Að meðaltali 17.000 ljósárum frá jörðu

Meðalfjarlægð þessara samfélaga ættu þó að vera um 17.000 ljósárum frá jörðinni samkvæmt niðurstöðunum og því afar erfitt fyrir jarðarbúa að ná sambandi með þeirri tækni sem við höfum nú hafa aðgang að. 

Í rannsókninni er þó tekið fram að einnig sé hugsanlegt að við séum eina tæknisamfélagið í vetrarbrautinni okkar og er það talið slæmt merki fyrir okkar tilvist en það gæti bent til þess að vitsmunalíf og menning eins og okkar mannanna á jörðinni sé ekki langlíf.

„Með því að leita að lífi úti í geimnum, jafnvel þótt við finnum ekki neitt, erum við að rannsaka okkar eigin framtíð og örlög,“ segir Prófessor Conselice.

mbl.is

Bloggað um fréttina