Ís sem inniheldur allt sem Íslendingar elska

Guðrún segir nýja vöffluísinn innihalda allt það sem Íslendingar elska.
Guðrún segir nýja vöffluísinn innihalda allt það sem Íslendingar elska. Samsett ljósmynd: Kjörís/K100

Nýr vöffluís er nýkominn á markað frá Kjörís en Ásgeir Páll og Jón Axel þáttastjórnendur Ísland vaknar á K100 voru með þeim fyrstu á Íslandi til að smakka glænýja framleiðslu af nýja ísnum í Hveragerði þar sem öll framleiðsla Kjörís fer fram. Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss, mætti í hjólhýsi K100 sem staðsett var í bænum á föstudag og ræddi þar um lífið í bænum og „ísást“ Íslendinga.

Ísinn, sem ber nafnið „Xoxo“, sem er táknmynd fyrir kossa og knús, byrjaði í dreifingu í gær en hann inniheldur að sögn Guðrúnar „allt sem Íslendingar elska“.

„Hann er svolítið saltur. Í honum er mjúkur Sambó-lakkrís með mjúkri Sambó-lakkrísfyllingu og svo er saltlakkrísdýfa líka, bæði að ofan og neðan,“ útskýrði Guðrún. 

Aðspurð sagði hún að ísgerðin væri alltaf opin fyrir ábendingum frá fólki og sagði að fyrirtækinu bærist mikið af fyrirspurnum og ábendingum um nýjar hugmyndir að ís.

„Við erum með mjög góðan og virkan vöruþróunarhóp og það fer allt inn í hann,“ sagði Guðrún.

Hlustaðu á allt viðtalið við Guðrúnu í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir