Flutti einhleyp og ólétt úr borginni og fagnar frelsinu

Þórunn Antonía er tveggja barna móðir og nýtur þess að …
Þórunn Antonía er tveggja barna móðir og nýtur þess að búa í einbýlishúsi í Hveragerði. Haraldur Jónasson/Hari

Tónlistarkonan Þórunn Antonía nýtur lífsins heldur betur í Hveragerði þar sem hún býr en hún mætti í hjólhýsi K100 með tíu mánaða gamla son sinn Arnald Þór til Loga Bergmanns og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum sem var í bænum á föstudag. Sagði hún meðal annars frá því hvernig hún hafi ákveðið að láta til skarar skríða að flytja úr borginni í smábæ einhleyp og ólétt og frá því frelsi sem hún upplifði í kjölfarið.

„Ég fann mig allt í einu í aðeins breyttum lífsaðstæðum. Var einhleyp og ólétt eins og konur verða stundum,“ sagði Þórunn Antonía og hló. 

„Maður rokkaði það bara þannig með því að selja litlu íbúðina sína í Vesturbænum og kaupa sér einbýlishús í Hveragerði með heitum potti og þúsund fermetra garði,“ sagði hún. 

Sagðist hún fyrst hafa fundið sig í ákveðnum „sjálfsvorkunnargír“ en að síðar hafi hún hlegið enda búi hún núna nánast í höll miðað við gömlu íbúðina og getur ráðið heimilinu sjálf. Sagði hún þó að ákvörðunin um að flytja hafi verið afar óundirbúin.

Haraldur Jónasson/Hari

Eins og í fasteigna-ástarsögu

„Það fléttaðist bara þannig að ég sat í afmælisveislu hjá guðdóttur minni sem var þá sex ára og var þá í pínu bömmer yfir ástandinu. Litlu bræður mínir sögðu bara: Af hverju flytur þú ekki til Hveragerðis? Þeir höfðu sagt þetta áður og ég alltaf hlegið að þeim. Glætan, ég er svo mikil borgarstelpa,“ útskýrði Þórunn Antonía og bætti við að hún hafi búið víða um heim og alltaf í stórborgum eins og Los Angeles og London. Tveir bræður hennar eru báðir búsettir í Hveragerði og einnig faðir hennar, tónlistarmaðurinn og lagahöfundurinn Magnús Þór Sigmundsson sem mætti einnig í hjólhýsið sama dag.

„En svo líður mér alveg æðislega í Hveragerði. Það var hús til sölu í garði bræðra minna. Þannig að þetta endaði á því að yndislega konan sem átti húsið keypti íbúðina mína í bænum svo við áttum íbúðaskipti. Þetta var eins og í einhverri fasteigna-ástarsögu,“ sagði Þórunn sem segir lífið í bænum vera mun afslappaðra en í borginni og minna stressandi. 

Þórunn var einmitt ákaflega afslöppuð með soninn í útsendingu og gaf honum meðal annars brjóst á meðan hún sagði frá tónlistarsköpun hennar en hún kveðst þurfa að hafa jafnvægi á milli þess að gefa út „súperpopp“ og „öfgacountry“.

Þórunn Antonía gaf syni sínum brjóst í myndbandinu við lagið …
Þórunn Antonía gaf syni sínum brjóst í myndbandinu við lagið Ofurkona sem hún gaf út í lok árs í fyrra. Skjáskot af Youtube

„Ég á mjög góðar Country-plötur. Það er ein sem er bara konu Country-plata frá 1970 og eitthvað. Þær eru allar að syngja um menn sem hafa svikið þær og að þær séu einstæðar mæður og þurfi að vinna. Ég gæti nú alveg skellt í eina slíka,“ sagði Þórunn Antonía kímin rétt áður en hún gaf syninum að drekka.

Sjáðu allt viðtalið við Þórunni Antoníu í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir