Apple fær einkaleyfi á gervi-hópmyndum

Líklegt þykir að nýja tæknin, sem gerir notendum kleift að …
Líklegt þykir að nýja tæknin, sem gerir notendum kleift að vera saman á hópmynd þrátt fyrir að vera á ólíkum stöðum, muni verða aðgengileg í iPhone-snjallsímum Apple.

Apple hefur fengið einkaleyfi á tækni sem gerir notendum kleift að búa til gervi-hópmyndir svokallaðar, hópmyndir sem samansettar eru úr mörgum mismunandi myndum. Ættu notendur þannig að geta tekið hópmynd þrátt fyrir að vera á ólíkum stöðum sem gæti einmitt komið sér vel á þeim tímum sem flestir hafa verið að vinna heiman frá og hafa þurft að halda fjarlægðarmörkum vegna kórónuveirufaraldurs. Greint er frá þessu á fréttavef Gadgets. 

Í skýrslu Einkaleyfisstofu Bandaríkjanna (e. United States Patent and Trademark Office) um málið koma fram upplýsingar og myndir af tækninni sem Apple fékk einkaleyfi á. Þar kemur meðal annars fram að tæknin feli í sér að notuð sé tölva sem muni geta búið til fyrrnefndar hópmyndir úr mörgum mismunandi myndum. Líklegt þykir að tæknin muni verða aðgengileg í iPhone-snjallsímunum Apple.

Tæknin er útskýrð í skýrslu frá Einkaleyfisstofu Bandaríkjanna.
Tæknin er útskýrð í skýrslu frá Einkaleyfisstofu Bandaríkjanna.

Mun þá hver notandi geta tekið sjálfsmynd og mun í kjölfarið geta nýtt tæknina til að hreinsa bakgrunn myndarinnar og sameina hana myndum af öðrum notndum þannig að lokaafurðin verði einhvers konar hópmynd af mismunandi einstaklingum sem líta út fyrir að vera á sama stað. 

Samkvæmt upplýsingum á vefnum 9to5Mac sótti Apple um einkaleyfisrétt á tækninni fyrir tæpum tveimur árum en ekki hefur komið fram hvenær tæknirisinn mun bjóða viðskiptavinum sínum að nota tæknina. 

mbl.is