„Ísland er land þitt“ varð til á geðdeild

Magnús Þór Sigmundsson.
Magnús Þór Sigmundsson.

Magnús Þór Sigmundsson, tónlistarmaður og lagahöfundur var einn gesta morgunþáttarins Ísland vaknar í Hveragerði í fyrradag en hann er búsettur þar. Sagði hann að ákvörðunin um að flytja í bæinn hafi verið ein sú besta sem hann hefur tekið og opnaði sig um það hvernig eitt hans þekktasta lag kom til sögunnar. 

Magnús er meðal annars þekktur fyrir að vera höfundur lags, sem oft skýtur upp kollinum í umræðunni um það hvort skipta eigi út íslenska þjóðsöngnum, lagið sem samið er við ljóðið „Ísland er Land þitt“. Magnús sagðist þó aldrei sjálfur hafa verið mikill talsmaður þess að lagið yrði notað sem nýr þjóðsöngur Íslendinga þó að það væri orðið vel þekkt og textinn, sem er eftir Margréti Jónsdóttur, væri afar fallegur.

„Ég var að vinna á geðdeild. Ég samdi þrjú lög þetta kvöld. „Ísland er land þitt“, „Draumur Aldamótabarnsins“ og „Reynitréð“. Þetta er allt eftir hana [Margréti Jónsdóttur],“ sagði Magnús aðspurður um tilurð lagsins vinsæla.

„Þetta var þannig á þessum tíma að ég vildi annað hvort vinna á geðdeild eða á barnaheimili og ég fékk betri laun á geðdeildinni. Svo þróast þetta þannig að ég tók gítarinn alltaf með mér á næturvaktir. Svo var fólkið sem var þarna inni, sem er náttúrulega bara eins og ég og þú, aðeins öðruvísi kannski, og ég var farin að svæfa það alltaf með gítarnum,“ sagði Magnús og bætti við að hann hafi alltaf spilað nýjustu lögin sín fyrir íbúana enda hafi þeir verið afar áhugasamir hlustendur. 

„Það varð til þess að ég fór að semja lögin,“ sagði hann og bætti við: „Þetta kvöld þá samdi ég lagið við „Ísland er land þitt“ og spilaði fyrir fólk sem var þarna.“

„Ég komst að því að þar sem þetta var lag sem lagðist svona vel í litlu deildina þá myndi þetta virka vel í stóru deildinni,“ sagði Magnús.

 Hlustaðu á allt viðtalið við Magnús í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir