Skipti á fyrstu bleyjunni á fæðingardeildinni

„Þetta er svolítið eins og ég sé að leika aðalhlutverkið …
„Þetta er svolítið eins og ég sé að leika aðalhlutverkið í einhverjum mjög vinsælum þáttum en svo er ég allt í einu kominn í einhverja „spin off“ seríu. Sem er bara geggjað, ég hef gott af því,“ sagði Herra Hnetsmjör um föðurhlutverkið en hann kvaðst fylgjast vel með öllum tímabilum sonarins í snjallsíma-appi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég skipti á minni fyrstu bleyju á fæðingardeildinni. Ég er með enga reynslu af þessu, er yngsta barn. En þetta er bara geggjað,“ sagði tónlistarmaðurinn Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör um föðurhlutverkið í Síðdegisþættinum á K100 í vikunni. Tónlistarmaðurinn eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Björg­vin Úlf Árna­son Castañeda, með kærustu sinni Söru Linneth Castañeda í febrúar og er  hann nú nýkominn úr fæðingarorlofi.

„Þetta er svolítið eins og ég sé að leika aðalhlutverkið í einhverjum mjög vinsælum þáttum en svo er ég allt í einu kominn í einhverja „spin off“ seríu. Sem er bara geggjað, ég hef gott af því. Þetta er bara gott fyrir egóið,“ bætti hann við en hann sagðist fylgjast vel með öllum tímabilum sonarins í snjallsíma-appi.

Herra Hnetusmjör tók þátt í dagskrárliðnum „20 ógeðslega mikilvægar spurningar“ í þættinum þar sem ýmislegt kom í ljós um tónlistarmanninn, sem viðurkenndi að hann hafi verið handtekinn og lent í fangaklefa þegar hann var nýorðin 18 ára og að hann hefði verið kallaður ýmsum undarlegum gælunöfnum meðal annars af öðrum tónlistarmönnum.

„Erpur kallaði mig alltaf Smjörvi. Huginn kallaði mig alltaf Hneti, af því að hann veit að það fer í taugarnar á mér. Eða „Nutty, Nutty Professor,“ sagði hann og bætti við: „Það er endalaust af ömurlegum „nikkneimum“ sem er búið að finna yfir mig,“ sagði hann.

Herra Hnetusmjör sagði aðspurður að það væri „hundrað prósent“ von á mjúkri tónlist frá honum í kjölfar föðurhlutverksins en að nýjasta lag hans, sem hann gaf úr á fimmtudaginn var, „Eitt fyrir klúbbinn“ væri undantekning á því.

„Svo eftir það þá er þetta farið að vera helvíti mjúkt sumar,“ sagði hann. 

Ræddi hann meðal annars dagskrá sem er í boði á bar hans, 203 Bar, sem hann opnaði að sögn „í mánuð áður en Covid kom.“ Staðurinn hefur nú verið opnaður aftur en þar býður Gói Sportrönd meðal annars upp á „auto-tune“-karíókí á fimmtudögum.

Hlustaðu á allt viðtalið við Herra Hnetusmjör í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is