„Ég veit ekki hvort ég muni eiga starfsferil eftir þetta“

„Ég veit ekki hvort ég muni eiga starfsferil eftir þetta …
„Ég veit ekki hvort ég muni eiga starfsferil eftir þetta en skítt með það,“ sagði leikarinn John Boyega á mótmælum sem fóru fram í Hyde Park í London í gær. mbl.is/AFP

Breski leikarinn John Boyega, sem þekktur er meðal annars fyrir leik sinn í nýjustu Star Wars kvikmyndunum þar sem hann fór með hlutverk Finn, hefur tekið virkan þátt í mótmælunum sem nú fara fram víða um heim í kjölfar andláts George Floyd í Bandaríkjunum. Greint er frá þessu á fréttavef IndieWire.

Boyega flutti afar tilfinningaþrungna ræðu á mótmælum sem fóru fram í Hyde Park í London í gær en þar sagði hann meðal annars að líf svartra hafi alltaf skipt máli og lagði áherslu á að nú væri tíminn til að sína þeim stuðning sem hafi fallið vegna kynþáttahaturs. 

„Ég er að tala til ykkar frá hjarta mínu. Ég veit ekki hvort ég muni eiga starfsferil eftir þetta en skítt með það,“ sagði Boyega en ræðu hans hefur verið dreift víða á Twitter.

„Við vitum ekki hvað George Floyd hefði getað afrekað. Við vitum ekki hvað Sandra Bland hefði getað afrekað, en í dag munum við tryggja það að þetta verður ekki framandi hugsun fyrir ungdóminn okkar,“ sagði hann.

Hægt er að hlusta á hluta úr ræðu Boyega í spilurunum hér að neðan. 

mbl.is