„Það er bara mikil reiði í samfélaginu“

„Þetta er harkalegt. Margir vilja meina að þetta séu tilraunir …
„Þetta er harkalegt. Margir vilja meina að þetta séu tilraunir til að gera friðsamleg mótmæli ólögleg. Af því ef þú ert úti ertu bara að brjóta lög,“ sagði Rafn Steingrímsson, sem búsettur er í Cincinnati í Bandaríkjunum þar sem víða standa yfir hávær mótmæli gegn kynþáttahatri. Ljósmynd Samsett: AFP

Rafn Steingrímsson, sem búsettur er í Cincinnati í Ohio-ríki í Bandaríkjunum, ræddi við Síðdegisþáttinn í gær um ástandið í Bandaríkjunum þar sem gríðarleg mótmælaalda hefur risið í kjölfar andláts George Floyds, sem lést eftir harkalega meðferð lögreglu við handtöku, og útgöngubanni hefur verið beitt víða vegna óeirða.

Sagði Rafn að honum þætti ástandið ekki vera eins alvarlegt og fjölmiðlar í Evrópu létu það líta út fyrir að vera en hann kvað mótmælin vera að mestu leyti afar friðsamleg.

„Svona 99% af þessu er mjög friðsamlegt. En það er kannski ekki það sem ratar í fjölmiðlana. Það eru kannski einhverjir vandræðagemsar sem fylgja með í svona og nýta sér svona ástand til að ræna og rupla en langmest af þessu er bara fólk sem er að mótmæla dauða George Floyds og þeirri menningu sem hefur verið í kringum löggæslu sérstaklega,“ sagði Rafn. 

Hávær mótmæli gegn kynþáttafordómum og hatri fara nú fram víða …
Hávær mótmæli gegn kynþáttafordómum og hatri fara nú fram víða í Bandaríkjunum í kjölfar atviks þar sem George Floyd, svartur maður, lést vegna harkalegrar meðferðar lögreglu. Myndin er af mótmælum í New York borg í gær. AFP

„Ef þú ert svartur eða af afrískum uppruna ertu samkvæmt tölum eitthvað um fjórum sinnum líklegri til að lenda í einhverju svona. Þannig að það er eitthvað í menningu lögreglunnar að taka mun harðar á svörtu fólki heldur en öðru fólki,“ sagði hann. 

Gagnrýndi Rafn viðbrögð Donald Trump Bandaríkjaforseta við mótmælunum sem hafa verið afar umdeild en Trump sagðist meðal annars á mánudag ætla að beita hernum til að binda endi á mótmælin ef yfirvöld í ríkjunum tækist ekki að ná stjórn á ástandinu.

„Hann [Trump] hefur aldrei einhvern veginn getað stigið í það hlutverk að vera einhvers konar sameiningartákn. Það virðist alltaf allt snúast um að tala inn í ákveðinn þröngan hóp stuðningsmanna hans. Hann brást ekki í því og gerði það aftur í [fyrradag],“ sagði Rafn.

Útgöngubann hefur verið í Cincinnati síðustu daga en Rafn hafði ekki fengið fregnir af því hversu lengi það muni vara þegar hann ræddi við Síðdegisþáttinn. „Þetta er harkalegt. Margir vilja meina að þetta séu tilraunir til að gera friðsamleg mótmæli ólögleg. Af því að ef þú ert úti ertu bara að brjóta lög,“ sagði hann. 

Aðspurður sagðist hann ekki geta gert sér í hugarlund hvenær draga muni úr mótmælunum en viðurkenndi að hann haf búist við að mótmælin myndu minnka á mánudaginn, þar sem fólk þyrfti að mæta í vinnu. Það hafi þó ekki gerst.

„En manni finnst líklegt að þetta lægi. Fólk hefur ekki endalausan tíma til að mótmæla á hverjum einasta degi,“ sagði hann. „En það er bara mikil reiði í samfélaginu út af þessu. Það er komið að ákveðnum suðupunkti yfir því hvernig þessum málum hefur verið háttað.“ 

Hlustaðu á allt viðtalið við Rafn í spilaranum hér að neðan.

 mbl.is