„Hungrið í fólkinu var áþreifanlegt“

Páll Óskar ræddi sögulega tónleika sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands, nýtt …
Páll Óskar ræddi sögulega tónleika sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands, nýtt lag sitt „Djöfull er það gott“, og sýningu hans á Rokksafni Íslands í Reykjanesbæ í Síðdegisþættinum á dögunum.

„Viðbrögðin, þó að það hafi verið bara 500 sem voru í salnum, voru eins og frá þúsund manns. Maður fann alveg á andrúmsloftinu að hungrið í fólkinu var áþreifanlegt,“ sagði Páll Óskar um tónleika sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu síðastliðinn fimmtudag en tónleikarnir voru að hans sögn sögulegir enda fjölmennustu tónleikar á Íslandi eftir samkomubann sem sett var á vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 500 manns fengu að vera á tónleikunum sem voru einnig sendir út í beinni útsendingu á RÚV. 

Páll Óskar ræddi tónleikana, nýja lagið sitt „Djöfull er það gott“, og sýningu hans á Rokksafni Íslands í Reykjanesbæ í Síðdegisþættinum á dögunum en hann sagði að gallinn sem hann klæddist á sinfóníutónleikunum myndi að öllum líkindum enda á safninu.

Fyrstu tónleikarnir eftir Covid

 „Gallinn á heima núna á safninu því ég held að þessir tónleikar fari í sögubækurnar seinna meir sem fyrstu tónleikarnir eftir Covid,“ sagði hann. 

Páll Óskar sagði að gallinn sem hann klæddist á tónleikunum …
Páll Óskar sagði að gallinn sem hann klæddist á tónleikunum sem haldnir voru á fimmtudag ætti heima á Rokksafninu enda væri um sögulega tónleika að ræða. Skjáskot af RÚV

Mælti hann sérstaklega með því að Íslendingar gerðu sér ferð á Reykjanesið til að heimsækja Rokksafnið.

„Þetta er flottur ísbíltúr til Keflavíkur og ég get mælt með því að fólk dúlli sér aðeins í þessu. Af því að við Íslendingar eigum, svo ég megi monta mig pínu, við eigum svo brjálæðislega flottar og fallegar poppstjörnur. Poppstjörnurnar sjálfar og lögin hafa farið inn í miðtaugakerfið á þjóðinni. Þarna á Rokksafninu eru allir saman komnir. Frá Ellý Vilhjálms og upp í Kaleo,“ sagði Páll Óskar og bætti við að hann hafi sótt svipaða sýningu í Noregi sem hafi opnað augu hans fyrir því hversu margar stórstjörnur Íslendingar ættu miðað við stærri þjóðir.

„Norsararnir eiga bara A-ha.  Ég þekkti engan annan,“ sagði hann. „Og við nokkrar hræður úti á hafi erum með Björk, Sigurrós, Kaleo og Of Monsters and Men,“ sagði hann.

Kvaðst Páll Óskar vera bjartsýnn yfir sumrinu og sagði að verkefnin væru nú aftur farin að streyma inn þó að hann fengi oft heldur lítinn fyrirvara fyrir gigg.

„Ég er bara með hljóðkerfið tilbúið í bílnum og ég bara passa mig á því að raka mig á hverjum degi til að vera sætur,“ sagði hann kíminn í bragði.

Hlustaðu á allt viðtalið við Pál Óskar í spilaranum hér að neðan.

 Hægt er að horfa á tónleika Páls Óskar í spilaranum hér.

mbl.is