„Skrítnir allir þessir stimplar“

Bubbi hefur ekki setið auðum höndum í samkomubanninu.
Bubbi hefur ekki setið auðum höndum í samkomubanninu.

„Ég er svo kátur með það að það var aldrei sagt hvað ég var ofvirkur heldur: Djöfull ertu duglegur,“ sagði Bubbi Morthens sem hefur ekki setið auðum höndum í samkomubanninu en hann hefur nýtt tímann til að æfa líkamann, rækta garðinn af ástríðu, hreinskrifa nýja ljóðabók, vinna að veiðibók og hefur búið sig undir upptöku nýrrar plötu í haust. Hann mætti í Síðdegisþáttinn á K100 á dögunum og ræddi um lífið og tilveruna, um nýja lagið Þöggun og gagnrýndi meðal annars ákveðna stimpla sem hann segir samfélagið setja á fólk.

„Þetta eru stimplar. Að vera ofvirkur. Það er gildishlaðið, í staðinn fyrir duglegur sem er hrós og fallegt og alltumlykjandi,“ sagði Bubbi. „Ég get alveg trúað því að Einstein hafi verið skapandi en ekki með athyglisbrest,“ bætti hann við. „Þeir eru rosa skrítnir allir þessir stimplar sem er verið að setja á okkur.“

Sagðist Bubbi hafa æft meira en venjulega í samkomubanninu enda hafi hann haft meiri tíma en venjulega. Hann viðurkenndi að hans akkilesarhæll í hollustunni væri lakkrísinn sem hann segist þurrka sérstaklega áður en hann borðar hann.

„Lakkrísinn er hrikalegur. Ég þurrka hann þannig að hann er glerharður þannig að einn lakkrísbiti er lengi að [leysast upp] og fer fram og til baka eins og tugga,“ sagði Bubbi.

„Þú setur hann í skál og setur hann upp á þurrkarann. Hann þarf að vera þar í hálfan mánuð,“ bætti hann við kíminn í bragði.

Nýjasta lag Bubba, Þöggun, var einnig rætt í þaula í þættinum en lagið var spilað á K100 í kjölfarið.

„Ríkið er farið að hefta okkur á alls konar sviðum, með upplýsingar, liggja á upplýsingum og það má ekki gefa þessar upplýsingar. Bara, nei þú færð ekkert að vita,“ sagði Bubbi um innblásturinn fyrir laginu.

Horfðu á allt viðtalið við Bubba í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is