Gera allt frá grunni

„Fiskinn fáum við nánast beint úr bátunum í Grindavíkurhöfn,“ segir …
„Fiskinn fáum við nánast beint úr bátunum í Grindavíkurhöfn,“ segir Halla María. Nóg er að gera á veitingastaðnum í sumar. Ljósmynd/Víkurfréttir

Grindvíkingurinn Halla María Svansdóttir dó ekki ráðalaus þegar hún missti vinnuna árið 2011. Hana grunaði að eftirspurn væri eftir veitingastað eða veitingaþjónustu á svæðinu svo hún tók til við að útbúa holla rétti í eldhúsinu heima, og eins og allir góðir frumkvöðlar byrjaði hún á að gera tilraunir á smáum skala til að meta rekstrarforsendurnar.

Hún þurfti að vísu að finna leið til að gera það með löglegum hætti, því það að selja mat heim að dyrum kallaði á dýra fjárfestingu í stóreldhúsi með öllum tilheyrandi úttektum og leyfum. „Við komumst að því að þó við mættum ekki selja tilbúinn mat, þá máttum við selja fólki námskeið og tilheyrandi poka með námsgögnum. Fyrstu sendingarnar okkar voru því seldar sem námskeið ætluð til að hjálpa fólki að þjálfa sig í að borða hollan og góðan mat,“ upplýsir Halla glettin.

„Við notum hágæða hráefni og eldum það með heilnæmum hætti,“ …
„Við notum hágæða hráefni og eldum það með heilnæmum hætti,“ segir Halla. Ljósmynd/Víkurfréttir

Viðskiptavinunum fjölgaði jafnt og þétt og fljótlega var orðið ljóst að óhætt væri fyrir Höllu og Sigurpál Jóhansson, eiginmann hennar, að taka stökkið svo þau opnuðu veitingastaðinn Hjá Höllu í húsi gömlu hafnarvigtarinnar við Grindavíkurhöfn. Þar er í dag heimilisvörubúðin Vigt því rekstur Höllu og Sigurpáls sprengdi húsnæðið utan af sér og fluttu þau á Víkurbrautina þar sem Sparisjóðurinn var áður til húsa. Að lokum bættist við annar veitingastaður í flugstöðinni en sá staður er lokaður í augnablikinu og bíður þess að flugumferð um Keflavík komist aftur í eðlilegt horf.

Snýst um heimamenn

Hjá Höllu er einn af fjölmörgum framúrskarandi veitingastöðum sem hafa verið opnaðir á Reykjanesi á undanförnum árum, við mikla hrifningu matgæðinga. Er nánast með ólíkindum hve marga góða veitingastaði má t.d. finna bara í litlu Grindavík. Vafalítið hefur það hjálpað þessum geira hvað komum erlendra ferðamanna til landsins hefur fjölgað en Halla segir reksturinn hjá sér þó einkum byggjast á viðskiptum heimamanna. „Við höfum gætt þess að hafa alltaf pláss fyrir fólkið úr okkar nærsamfélagi enda eru þau okkar mikilvægustu viðskiptavinir. Rúturnar fá því ekki að fylla staðinn af ferðamönnum í hádeginu, og ekki er tekið við hópum með fleiri en 20 manns á þeim tímum dags þegar mest er að gera. Okkar stærsti tekjustofn er síðan sala á tilbúnum mat til fyrirtækja og skiptir okkur miklu máli að allmörg stór fyrirtæki í Reykjavík hafa valið að bjóða starfsfólki sínu upp á holla og góða rétti frá okkur.“

Hvað skyldi svo gera matinn á Reykjanesi svona bragðgóðan? Í tilviki Höllu er það ekki síst ferskleikinn sem gerir gæfumuninn. „Við notum hágæða hráefni og eldum það með heilnæmum hætti. Ekkert er djúpsteikt í eldhúsinu og er fiskurinn t.d. gufusoðinn og allar sósur og sultur gerðar frá grunni svo við getum tryggt að engin aukaefni eru í matnum. Við notum ferskt grænmeti en ekki frosið, notum íslenska framleiðslu hvenær sem því verður við komið og veljum lífrænt hráefni ef það er í boði. Fiskinn fáum við svo nánast beint upp úr bátunum í Grindavíkurhöfn og eru gestir sem koma til okkar í hádegisverð yfirleitt að fá fisk sem var veiddur þá um morguninn.“ 

Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

#taktubetrimyndir