Rowling fær börn til að myndskreyta nýja barnabók

AFP/CARL COURT

Harry Potter-aðdáendur geta svo sannarlega glaðst yfir því að J.K. Rowling, höfundur Harry Potter-bókanna, er að gefa út nýja barnabók. Rowling hefur nú sett af stað keppni á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem hún hvetur börn til þess að senda inn ævintýralegar teikningar of fá sigurvegararnir teikningar sínar birtar í bókinni! Segir Rowling hugmyndina hafa kviknað í ástandinu þegar hún hugsaði hversu dásamlegt það væri að börn sem væru föst heima og þyrftu mögulega að dreifa huganum á skrítnum og erfiðum tímum gætu myndskreytt bókina hennar.

Rowling hlakkar til að sjá óheflað ímyndunarafl þeirra sem senda inn myndir og segist ekki endilega vera að leita að tæknilega sterkustu teiknurunum heldur hlakki hún frekar til að sjá fjölbreytt og einstök listaverk barnanna. Enn fremur tilkynnti hún að allur ágóði af sölu bókarinnar myndi renna til góðgerðarsjóðs sem sérhæfir sig í að létta undan álagi Covid-19. Virkilega vel gert hjá þessari mögnuðu konu og ég verð að segja að ég hlakka virkilega mikið til að lesa þessa nýju bók.

DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Íslatte.

mbl.is