Eins og að synda í kampavínsglasi

„Undir vatninu [Kleifarvatni] leynist hver og krauma loftbólur upp úr …
„Undir vatninu [Kleifarvatni] leynist hver og krauma loftbólur upp úr botni vatnsins svo að líkist því að synda í risastóru kampavínsglasi,“ segir Signý Hermannsdóttir sölu- og markaðsstjóri hjá Dive.is. Ljósmynd/Dive.is

Á ferðalögum sínum um heiminn hafa margir Íslendingar uppgötvað hvað köfun er skemmtilegt sport, og ævintýri líkast að skoða kóralrif og litríka fiska í hlýjum sjó Kyrrahafsins eða Karíbahafsins. En þeir sem vilja ferðast alla leið til Taílands eða Belís til að kafa eru að leita langt yfir skammt því Ísland hefur upp á marga framúrskarandi köfunarstaði að bjóða.

Signý Hermannsdóttir
Signý Hermannsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Signý Hermannsdóttir er sölu- og markaðsstjóri hjá Dive.is sem bæði rekur Sportköfunarskóla Íslands og skipuleggur köfunarferðir í Silfru á Þingvöllum og í Kleifarvatn á Reykjanesi. Hún segir marga ferðast gagngert yfir hálfan hnöttinn til að kafa á Íslandi enda þyki Silfra einstakur köfunarstaður og vatnið svo tært að sjá má langar leiðir. „En Kleifarvatn er ekki síður skemmtilegur staður fyrir kafara að heimsækja, því undir vatninu leynist hver og krauma loftbólur upp úr botni vatnsins svo að líkist því að synda í risastóru kampavínsglasi.“

Fyrir þá sem vilja nota sumarið til að láta drauminn rætast og læra að kafa eru nokkrir valmöguleikar í boði. Bæði í Silfru og Kleifarvatni má stunda yfirborðsköfun (e. snorkel) sem kallar ekki á sérstaka þjálfun umfram stutta leiðsögn sérfræðings sem m.a. kennir hvernig má blása vatni úr öndunarpípunni ef hún fyllist. Þeir sem vilja festa á sig súrefniskút og vera undir vatnsyfirborðinu í lengri tíma þurfa aftur á móti að fá köfunarréttindi og býður Dive.is upp á pakka sem inniheldur bæði köfunarkennslu og köfunarferð. „Sumir eru þegar með PADI-köfunarréttindi frá erlendum köfunarskólum en hafa þarf í huga að á stöðum eins og Silfru er líka gerð krafa um að fólk hafi lokið sérstöku námskeiði í köfun í þurrbúningi.“

Signý mælir sérstaklega með pakkaferð sem Dive.is býður upp á …
Signý mælir sérstaklega með pakkaferð sem Dive.is býður upp á þar sem er tvinnað saman að snorkla eða kafa í Kleifarvatni, skoða hverina í Krýsuvík og hellinn Leiðarenda og svo slaka á hjá Aurora Basecamp sem er þar skammt frá. Ljósmynd/Dive.is

Hverir, köfun og grillað við Kúlurnar

Hitastigið ofan í Silfru er á bilinu 2-4 °C en í Kleifarvatni 6-10 °C. Í ferðum Dive.is fá þátttakendur þurrbúninga og undirgalla sem halda hita á búki og útlimum og segir Signý að fólk finni aðeins fyrir kuldanum á höndum og í andliti, en það valdi engum sérstökum óþægindum. „Eftir köfunina hitum við fólk upp með bolla af heitum drykk og kannski að þurfi að leyfa mesta kuldanum að fara úr fingrunum áður en byrjað er að eiga aftur við snjallsímann,“ gantast hún og segir engan þurfa að hafa áhyggjur af að vatnið sé of kalt til að kafa í. Né heldur er hætta á of miklum hita í Kleifarvatni, þó að hverinn kraumi þar undir. „Við höfum komið fyrir línu sem fest er við botninn svo að þeir sem snorkla eigi auðveldara með að toga sig nær botninum og skoða hverinn í návígi.“

Það er gaman að skella sér í Kleifarvatn á góðviðrisdögum, …
Það er gaman að skella sér í Kleifarvatn á góðviðrisdögum, taka sundsprett eða snorkla. mbl.is/Árni Sæberg

Signý mælir sérstaklega með pakkaferð sem Dive.is býður upp á þar sem er tvinnað saman að snorkla eða kafa í Kleifarvatni, skoða hverina í Krýsuvík og hellinn Leiðarenda og svo slaka á hjá Aurora Basecamp sem er þar skammt frá: „Þetta systurfyrirtæki okkar hefur sett upp Kúlurnar, sem er norðurljósasetur á veturna, og er vinsælt hjá hópum að enda daginn þar, snæða grillmat við varðeld í hrauninu og njóta útsýnisins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »