Menning og gleði við hvert fótmál

Garðskagaviti er fallegur staður en Þórdís Ósk segir vitann vera …
Garðskagaviti er fallegur staður en Þórdís Ósk segir vitann vera einn af þeim stöðum sem allir ættu að heimsækja. Sjósund á svæðinu hefur notið vaxandi vinsælda en fjaran er falleg á skaganum og náttúran einstök. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Íbúar Reykjanesbæjar eru þekktir fyrir að kunna að gera sér glaðan dag, vera lagið að njóta lífsins og leggja rækt við menningu og listir. Heimamenn ætla ekki að láta veirufaraldurinn stoppa sig og segir Þórdís Ósk Helgadóttir að undirbúningur bæjarhátíða sumarsins sé kominn á fullan skrið. „Við gætum þess að fylgja vandlega öllum ráðleggingum yfirvalda og þurfum því að gera bæði plan A, B og C fyrir alla viðburði svo við séum við öllu búin.“

Þórdís er forstöðumaður Súlunnar sem er ný skrifstofa á stjórnsýslusviði Reykjanesbæjar og annast umsjón og þverfaglegt samstarf á sviði atvinnuþróunar, ferðamála, markaðsmála og menningarmála. Hún hefur í mörg horn að líta enda blómlegt menningarlíf í Reykjanesbæ og viðburðadagatal sumarsins fjölbreytt. Má t.d. nefna hátíðahöld 17. júní, árvissa barnahátíð og svo að sjálfsögðu Ljósanótt sem haldin er fyrstu helgina í september.

Huldukindur á sveimi

Þessu til viðbótar verður í allt sumar menningardagskrá í Duus Safnahúsum, sem hýsa sýningarsali listasafns og byggðasafns, sem og í öðrum söfnum bæjarins. „Í listasafninu lýkur þann 29. maí framúrskarandi sýningu Loja Höskuldssonar og Áslaugar Thorlacius, Innskoti, en 5. júní verður opnuð sýning Steingríms Eyfjörð. Sú sýning fjallar um náttúru, trú, náttúruvernd og samskipti við íslenska náttúruvætti og var sama sýning áður sett upp í Feneyjum og síðar í Listasafni Reykjavíkur. Þar kemur við sögu huldukind sem slapp laus svo að kalla þurfti til aðstoðar miðil sem býr í Sandgerði,“ segir Þórdís um listviðburðinn.

Þórdís mælir með Vatnaveröld í Sundmiðstöðinni fyrir börnin.
Þórdís mælir með Vatnaveröld í Sundmiðstöðinni fyrir börnin. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Einnig verður opnuð í listasafninu í júní sýning Haralds Karlssonar, eða Halla Kalla, undir listrænni stjórn dr. Margrétar Elísabetar Ólafsdóttur. Haraldur er þekktur fyrir að nýta stafræna miðla í listsköpun sinni og þar er von á mikilli sjónrænni upplifun. „ Í sýningarsal byggðasafnsins verður jafnframt ný sýning, Hlustaðu á hafið, þar sem fjallað er um fiskveiðar og árabátaútgerð á Reykjanesi fyrr á tímum og gestum veitt innsýn í löngu horfna veröld.“

Rokkað með þeim bestu

Víkingaheimar taka á móti gestum með forvitnilegum sýningum um landnám, norræna goðatrú og lífshætti víkinga, en í Rokksafni Íslands í Hljómahöll má kafa ofan í sögu íslenskrar samtímatónlistar. „Þar eru m.a. sérsýningar um feril Páls Óskars, önnur um Björgvin Halldórsson, og nýr sýningargripur þróaður í samvinnu við Gagarín sem samanstendur af gagnvirkum plötuspilurum,“ útskýrir Þórdís. „Þar geta gestir sett sérstakar plötur á þar til gerðan plötuspilara og varpast þá mynd upp á risaskjá tengd tónlistinni á plötunni.“

Börnin finna margt við sitt hæfi í söfnunum og hafa t.d. gaman af að kíkja á Skessuna á bak við Duus Safnahús, sem á það til að ropa eða leysa vind við mikla gleði smáfólksins. „ Rokksafnið býður líka upp á hljóðbúr eða „soundlab“ þar sem hægt er að spreyta sig á rafmagnstrommusetti, gítar, bassa og söng. Þá er Vatnaveröld í Sundmiðstöð Keflavíkur með frábæra innisundlaug með leiktækjum þar sem yngsta kynslóðin getur skemmt sér tímunum saman.“

Ótrúleg náttúrufegurð

Það eru margir gullfallegir staðir á Reykjanesinu.
Það eru margir gullfallegir staðir á Reykjanesinu. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson
Reykjanesskaginn er mikil náttúruperla og segir Þórdís að enn eigi margir eftir að upplifa töfra svæðisins og þau undur sem svæðið hefur upp á að bjóða. „Sjálf flutti ég hingað fyrir aðeins sjö mánuðum og það hefur komið mér mjög á óvart hve mikið er hér af einstökum perlum og fallegu umhverfi sem ég hafði ekki hugmynd um, hafandi búið áður í Reykjavík. Ferðaðist ég t.d. með gönguhópi Suðurnesja frá Vogum yfir í Grindavík eftir 17 km löngum stíg sem heitir Skógfellsvegur og fáir vita af. Var náttúrufegurðin þar hreint út sagt ótrúleg.“
Brúin milli heimsálfa er afar áhugaverð staðsetning að skoða.
Brúin milli heimsálfa er afar áhugaverð staðsetning að skoða. Ljósmynd/Aðsend

Meðal staða sem allir ættu að heimsækja nefnir Þórdís Garðskagavita, Reykjanesvita, Brimketil, Gunnuhver og brúna á milli heimsálfa sem öll eru í stuttri akstursfjarlægð frá Reykjanesbæ. Þá segir Þórdís fyrirtaks golfvelli á svæðinu og úrval gönguleiða, og upplagt að enda dag á golfvellinum eða í göngutúr með viðkomu á einhverjum af þeim fjölbreyttu veitingastöðum sem starfræktir eru á Reykjanesi. „Flóran spannar allt frá matarvögnum af allra bestu gerð yfir í fína veitingastaði sem bjóða upp á fyrsta flokks matarupplifun. Sveitarfélögin á svæðinu eru einmitt að hefja nýtt samstarfsverkefni undir yfirskriftinni Matarkistan, þar sem veitingastaðir á Reykjanesi taka höndum saman um að bjóða upp á smárétti á mjög hagstæðu verði og er hugmyndin sú að fólk fari á rúntinn, líti inn á nokkrum stöðum til að smakka og njóta sem víðast.“

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist