„Getum leyft okkur að vera bjartsýn“

Enginn skortur er á útivistamöguleikum á Reykjanesi þar sem meðal …
Enginn skortur er á útivistamöguleikum á Reykjanesi þar sem meðal annars er tilvalið að fara á kajak. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Reykjanesbær er sennilega það bæjarfélag sem orðið hefur fyrir mestum efnahagslegum áhrifum vegna kórónuveirufaraldursins. Stór hluti bæjarbúa vinnur á Keflavíkurflugvelli en fyrirtækin sem þar starfa hafa flest þurft að grípa til uppsagna enda flugumferð til og frá landinu lítil sem engin. „Um 40% af öllu efnahagslífi Reykjanesbæjar tengist flugvellinum með beinum hætti enda hefur þurft mikinn mannafla til að þjónusta þann mikla fjölda farþega sem fer þar í gegn,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.

„Reykjanesskaginn er mjög áhugaverður áfangastaður og svæðið okkar hefur upp …
„Reykjanesskaginn er mjög áhugaverður áfangastaður og svæðið okkar hefur upp á allt það að bjóða sem íslensk náttúra skartar, að fossum jöklum undanskildum,“ segir Kjartan Már Kjartansson. Undanfarin ár hefur íbúum á svæðinu fjölgað hratt. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Bæjarbúar virðast samt nokkuð brattir og minnir Kjartan á að niðursveifla í flugi og ferðaþjónustu hafi oft áður valdið samdrætti í Reykjanesbæ til lengri eða skemmri tíma. „Það virðist vera þannig að þegar verður samdráttur í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar, eða minnkun í flugi og ferðaþjónustu, þá koma áhrifin mjög hratt og greinilega fram á Suðurnesjum. Bara agnarlítill samdráttur í umferð um flugvöllinn hefur áhrif á svæðið, en minnkað flug hefur verið fylgifiskur ýmissa stóráfalla undanfarna áratugi. Þannig fundum við mikið fyrir því þegar flug dróst saman á heimsvísu í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 2001. Næsti skellur eftir það var ótengdur flugi, þegar varnarliðið fór árið 2006. Þá kom fjármálahrunið sem hafði dempandi áhrif á flug og ferðalög, og loks gosið í Eyjafjallajökli sem hafði skamvinn en mjög afgerandi áhrif á allt flug yfir Atlantshaf.“

Mikilfenglegt er að heimsækja Lat við Suðurstrandarveg fyrir utan Grindavík.
Mikilfenglegt er að heimsækja Lat við Suðurstrandarveg fyrir utan Grindavík. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Fljót að vinna sig upp úr lægðum

Þar með eru ekki öll áföllin talin, og er skemmst að minnast vandræða kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík, auk þess að áform um opnun álvers og annarrar kísilverksmiðju á sama stað runnu út í sandinn, og þar með öll von um að þar yrðu til ný störf. Á móti kemur að bærinn hefur notið góðs af uppgangi í ferðaþjónustu, og þá hefur orðið til líflegt samfélag á Ásbrú, þar sem varnarliðið var áður, en ýmsir frumkvöðlar og nýsköpunarfyrirtæki hafa komið sér þar fyrir í dag.

Sem fyrr segir eru íbúar Reykjaness alls ekki á þeim buxunum að gefast upp þó á móti blási. „Rétt eins og við finnum fljótt fyrir hvers kyns samdrætti, þá höfum við líka verið fljót að vinna okkur upp úr lægðinni þegar hjólin byrja að snúast á ný. Þrátt fyrir mikinn skell vegna veirufaraldursins þá benda allar spár til áframhaldandi vaxtar í flugi um allan heim svo við getum leyft okkur að vera bjartsýn á framtíðina.“

Ferðamenn missa af miklu

Er ekki úr vegi, á leið út úr kófinu, að skoða hvernig marka mætti stefnu í átt að enn blómlegra atvinnulífi á svæðinu. Kjartan bendir m.a. á þau sóknarfæri sem felast í því að fá fleiri ferðamenn – bæði innlenda og erlenda – til að skoða sig um á Reykjanesinu. „Reykjanesskaginn er mjög áhugaverður áfangastaður og svæðið okkar hefur upp á allt það að bjóða sem íslensk náttúra skartar, að fossum og jöklum undanskildum. Mikill meirihluti ferðamanna sem lenda í Keflavík heldur rakleiðis til Reykjavíkur, ekki ósvipað og flestir Íslendingar sem fara til London eru ekki mikið að pæla í nágrenni Heathrow-flugvallar heldur vilja komast sem fyrst á hótelherbergið sitt í borginni, koma farangrinum sínum fyrir og byrja þá fyrst að skoða sig um þar í kring.“

Til lengri tíma litið þyrfti að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið svo að samfélagið á svæðinu verði ekki eins viðkvæmt fyrir sveiflum í umferð um flugvöllinn. Þar bendir Kjartan á að lykilatriði sé að hækka menntastigið í bæjarfélaginu og greiða leið nýsköpunar. „Í gegnum tíðina hefur menntunarstigið á þessu svæði verið lægra en landsmeðaltalið og á það sér m.a. þá skýringu að á meðan varnarliðið var hér langstærsti vinnuveitandinn þurfti ekki að hafa mikla menntun til að komast í vel launað starf hjá þeim. Kaninn einfaldlega kenndi fólki það sem það þurfti að kunna til að geta unnið fyrir hann,“ útskýrir bæjarstjórinn og bætir við að í dag þyki grunnskólar Reykjanesbæjar veita mjög góðan undirbúning og öflugir fjölbrautaskólar í boði. „Þá hefur Keilir reynst mjög þörf viðbót og Ásbrú orðið að miðstöð vísinda, nýsköpunar og fræðslu, en nú bætum við um betur og vinnum að því í samvinnu við fleiri aðila að setja þar á laggirnar nýtt nýsköpunarsetur. Standa vonir til að það efli frumkvöðlastarf í Reykjanesbæ og nágrenni en hingað til hafa hlutfallslega fáar umsóknir í hina ýmsu nýsköpunarsjóði komið frá Suðurnesjunum.“

Næsti bær við New York

Reiknar Kjartan ekki með öðru en að Reykjanesbær muni rétta fljótt úr kútnum og að uppbygging svæðisins haldi áfram með tillheyrandi fólksfjölgun. Undanfarin ár hefur straumurinn legið til þessa svæðis og samhliða örri fjölgun hefur samsetning bæjarbúa oðið fjölbreyttari og alþjóðlegri. Segir Kjartan að þar hjálpi góð atvinnutækifæri, fjölskylduvænt umhverfi og hagstætt húsnæðisverð auk þess að stutt er að fara til höfuðborgarsvæðisins ef sækja þarf einhverja þjónustu þangað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

#taktubetrimyndir