Geta átt eftirminnilega ferð

„Það má alveg lofa því að fólk snýr heim alveg …
„Það má alveg lofa því að fólk snýr heim alveg jafn sælt og glatt úr ferðalagi til Reykjaness og ef farin hefði verið helgarferð til útlanda,“ segir Steinþór Jónsson, eigandi Hótel Keflavík. Hilmar Bragi Bárðarson

Steinþór Jónsson segir marga Íslendinga eiga eftir að uppgötva öll þau undur sem Reykjanesskaginn hefur upp á að bjóða. „Faðir minn hafði það fyrir sið að fara með barnabörnin sín í ævintýraferðir um Reykjanesið, jafnvel oft í mánuði, og í hvert skipti fann hann nýjan stað til að heimsækja. Kynna þyrfti svæðið betur því leitun er að skemmtilegri áfangastað fyrir fjölskyldur, náttúruunnendur og útivistarfólk. Ferðalag um Reykjanesið getur einfaldlega ekki klikkað,“ segir hann og minnir á að nafnið Blái demanturinn hafi í seinni tíð fest við leiðina um Reykjanesið svipað og leiðin upp að Gullfossi og Geysi er iðulega kölluð Gullni hringurinn.

Steinþór mælir með því að fólk gisti á Reykjanesi í …
Steinþór mælir með því að fólk gisti á Reykjanesi í nokkrar nætur og ferðist um allt svæðið og heimsæki þau náttúruundur sem eru þar í boði. Hér er eitt þeirra, svæði rétt fyrir utan sveitafélagið Vogar sem er með eindæmum fallegt. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Steinþór á og rekur Hótel Keflavík en um er að ræða elsta hótel svæðisins og eitt af rótgrónari ferðaþjónustufyrirtækjum landsins. Mikil uppbygging og metnaður hefur einkennt starfsemi hótelsins á undanförnum árum og er þar í dag hægt að hýsa allt að 150 gesti á 70 vistlegum herbergjum auk 5 lúxussvíta á 5 stjörnu hótelinu Diamond Suites. Nýjasta viðbótin er glæsilegur bar sem fengið hefur nafnið Diamond Bar. „Barinn er þannig hannaður að hann myndar framlengingu af Versace-móttöku hótelsins og tengist líka veitingastaðnum okkar KEF Restaurant. Barinn er að hluta til undir fallega innréttuðum glerskála sem hægt er að opna upp á gátt þegar veður leyfir. Á daginn er áherslan á hágæða kaffihúsastemningu með kaffidrykkjum og ljúffengum kökum. Á kvöldin reiðum við fram smárétti í fínni kantinum og drykki af öllu tagi en hugmyndin er sú að Diamond Bar verði góður staður til að eiga ánægjulega og afslappaða stund í góðum félagsskap bæði gesta bæjarins og bæjarbúa.“

Til að setja punktinn yfir i-ið er Diamond Bar með Moët-kampavínssjálfsala sem Steinþór segir þann fyrsta sinnar tegundar í Evrópu. „Aðeins örfá fimm stjörnu hótel í Bandaríkjunum hafa fengið að setja þennan sjálfsala upp hjá sér. Það er töluverð upplifun að fá sér kampavín úr sjálfsalanum enda þarf að nota sérstakan gullpening til að fá Moët-flöskuna.“

Það er einstök upplifun að gista í fimm stjörnu Diamond …
Það er einstök upplifun að gista í fimm stjörnu Diamond Suites lúxussvítunum á hótel Keflavík.

Líflegt á veitingastaðnum

Eins og gefur að skilja hefur heimsfaraldurinn bitnað harkalega á hótelrekstri Steinþórs. Hann hefur stýrt hótelinu í hálfan fjórða áratug og þurft að takast á við miklar sviptingar á þeim tíma, s.s. brottför varnarliðsins, eldgos í Eyjafjallajökli og bankakreppu, og lætur því ekki kórónuveiruna slá sig út af laginu.

Tók Steinþór þá ákvörðun að hafa hótelið opið undanfarna mánuði þrátt fyrir minnkuð viðskipti, m.a. svo að flugáhafnir hefðu einhvern stað til að gista á, enda koma enn stöku vélar til landsins með bæði farþega og frakt, auk þess að mikilvægt er að halda sem flestum starsfmönnum hótelsins í vinnu. Það vegur að einhverju leyti upp á móti fækkun hótelgesta að nóg hefur verið að gera á veitingastaðnum: „Undanfarnar vikur hefur KEF Restaurant verið fullbókaður af heimamönnum og gestum úr öðrum landshlutum. Við höfum getað búið þannig um matargesti að gott pláss er á milli fólks og geta t.d. smærri og stærri hópar haft sitt sérrými á móttökusvæðinu. Hingað þykir fólki gott að koma til að gera vel við sig í mat og drykk, og njóta allra þeirra þæginda sem hótelið hefur upp á að bjóða.“

Steinþór mælir með því að fólk gisti á Reykjanesi í nokkrar nætur, ferðist um allt svæðið, heimsæki náttúruundur, söfn, verslanir og alla þá góðu veitingastaði sem þar má finna. Nefnir hann sérstaklega nýtt samstarfsverkefni ferðaþjónustunnar á svæðinu þar sem ferðalangar geta fengið hagstæð tilboð og afslætti hjá mörgum fyrirtækjum á svæðinu með því að framvísa hótellykli sínum. „Það má alveg lofa því að fólk snýr heim alveg jafn sælt og glatt úr ferðalagi til Reykjaness og ef farin hefði verið helgarferð til útlanda,“ segir Steinþór og minnir á að Reykjanesið er jú rétt hjá útlöndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

#taktubetrimyndir