Flókið að útfæra opnun landsins

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamálaráðherra ætlar að elta sólina í sumar …
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamálaráðherra ætlar að elta sólina í sumar en hún segir að óvissan um opnun landamæra sé mikil. Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra sagði í samtali við Síðdegisþáttinn á K100 á dögunum að flókið væri að skipuleggja áformin um að opna landið 15. júní enda erfitt að segja til um það hversu margir muni sækja landið heim. Þeim fylgdi því enn mikil óvissa.

„Mér finnst skipta máli að stjórnmálamenn séu ekki að þykjast vita eitthvað miklu meira en við vitum. Því að þó að við vitum meira um Covid núna heldur en við vissum þá vitum við ofboðslega lítið,“ sagði Þórdís í þættinum en þar ræddi hún einnig almennt um ferðasumarið 2020, væntanleg ferðagjafabréf sem Íslendingar munu geta notað innanlands og nýlega könnun Gallup á ánægju landsmanna með stjórnmálamenn þar sem kom fram að 18% væru óánægð með störf Þórdísar.

„Þetta er flókið að útfæra bæði hvernig við ætlum að gera þetta og svo þurfa einhver flugfélög að vera tilbúin að fljúga. Við þurfum að finna leið til að geta sagt að við getum tekið á móti nógu mörgum þannig að við séum ekki að fæla áhugasama frá því vegna þess að við getum bara skimað ákveðið marga,“ sagði ferðamálaráðherra í samtali við Loga og Sigga. „Það er aðallega þessi óvissa. Við verðum að vera með flug til að fólk komi en ég heyri ekki annað en að það sé mjög mikill áhugi bæði varðandi flugfélögin og bókanir.

Svo eru ferðamenn sem vilja frekar koma til Íslands en á ýmsa aðra staði vegna alls sem hefur á gengið heldur en á aðra staði,“ sagði hún.

„Verð smá reið ef það er alltaf vont veður“

Þórdís viðurkenndi að hún væri sjálf ekki búin að plana sumarfríið en stefndi á að elta sólina hérlendis. „Ég er svona týpa, mig langar ekki að borga slatta upphæð fyrir að vera einhvers staðar á hóteli svo er góða veðrið einhvers staðar hinum megin á landinu. Ég er meira að vinna með það að taka frá tímann sem ég ætla að leyfa mér. Ég hlakka mjög til að taka krakkana með og fara í einhverja afþreyingu sem við höfum ekki gert með þeim,“ sagði Þórdís. „Ég verð svolítið að fá mína sól og ætla að reyna að elta það alveg.“

„Ég elska gott veður og verð smá reið ef það er alltaf vont veður,“ sagði hún kímin í bragði.

Þórdís sagðist ekki kippa sér upp við niðurstöður úr könnun Gallup á ánægju fólks með stjórnmálamenn þar sem kom fram að 18% væru óánægðir með störf hennar. „Ef þú vilt ekki að fólk sé óánægt með þig þarftu að finna þér eitthvað annað að gera en að vera stjórnmálamaður,“ sagði hún. 

„Maður er auðvitað að bera ábyrgð á risastórum málaflokkum og þarf að taka ákvarðanir og þær eru ekki allar vinsælar.  Maður stendur fyrir eitthvað og maður veit að það standa ekki allir fyrir það sama. En sem betur er líka fólk sem stendur ekki endilega fyrir það sama sem hatar mann samt ekki en það er allur gangur á því.“ 

 Hlustaðu á allt viðtalið við Þórdísi í Síðdegisþættinum í spilaranum hér að neðan.


 

mbl.is