„Gott að senda þakklæti út í heiminn“

mbl.is/Hari

Ég veit ekki hver þarf á þessu að halda, eflaust einhverjir, en þú sem lest þetta ert magnaður einstaklingur. Leyfðu þér að staldra örlítið við og vera stoltur af þér. Farðu yfir allt það sem þú hefur sigrast á og komist yfir og sjáðu hversu langt þú ert kominn í dag. Það eitt að vera akkúrat hér og nú er ótrúlegt afrek og tilveran er svo magnað fyrirbæri, þó að hún geti verið flókin þá eru vandamálin til þess að leysa þau. Aldrei nokkurn tímann gefast upp á þér, það er undir okkur sjálfum komið að hafa trú á okkur og við vitum alveg að við getum það.

Það er ótrúlega hollt að leyfa sér að fara í gegnum þetta, staldra við og finna fyrir stolti. Lífið getur verið svo yfirþyrmandi og hefur eflaust verið það fyrir flestalla undanfarna mánuði. Mér finnst rosalega gott að vera með einhvers konar möntru sem ég get farið með þegar þyrmir yfir mig. Þær eru breytilegar en oft finnst mér rosa gott að senda þakklæti út í heiminn. Til dæmis að segja takk fyrir að ég sé heilbrigð, takk fyrir að ég sé hamingjusöm og ég get borið ábyrgð á því sjálf, takk fyrir að ég sé örugg, takk fyrir hvað það er gaman að vera til. Mér finnst það hafa ótrúlega öflug áhrif og getur gert heilmikið fyrir mig. Þannig að heilræði mitt fyrir daginn í dag er einfaldlega: Ekki gleyma því hvað þú ert mögnuð eða magnaður, vertu stoltur af þér og það besta er alltaf fram undan!

DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Íslatte.

mbl.is