„Varið ykkur ef þið ætlið að fara að máta hjólafatnað“

„Ég segi bara: Varið ykkur ef þið ætlið að fara …
„Ég segi bara: Varið ykkur ef þið ætlið að fara að máta hjólafatnað og ég sendi fólki sem var í mátunarklefanum þennan laugardag í Sport 24, bara afsakið. Ég vona að þið jafnið ykkur á þessu,“ sagði Siggi. Ljósmynd samsett K100/Flickr

Siggi Gunnars sagði Loga Bergmann og hlustendum K100 afar skoplega sögu af sjálfum sér í Síðdegisþættinum í gær en hann henti að sögn næstum niður nokkrum fullum mátunarklefum í íþróttavöruversluninni Sport 24 eftir góðan hjólatúr á laugardag.

„Þarna er verið að selja hjólafatnað í minni stærð. Ég mæti í þessa búð og er að taka alls konar buxur, svona þröngar bleyjubuxur,“ sagði Siggi sem hefur hjólað mikið upp á síðkastið. 

Siggi Gunnars hefur hjólað mikið upp á síðkastið og var …
Siggi Gunnars hefur hjólað mikið upp á síðkastið og var tilbúinn að uppfæra hjólafatnaðinn á laugardaginn og fá sér ekta hjólabuxur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er að prófa að fara í svona síðbleyjubuxur úr „spandex“ sem leggjast alveg utan um mann. Þær passa alveg ágætlega en ég ætlaði að fara í númeri minni. Ég fer úr buxunum og er einhvern vegin kominn með þær niður á ökkla. „Note bene“ ber að ofan og á brókinni, en það gengur eitthvað illa að koma buxunum yfir fæturna á mér. Þú veist að þetta er mjög sleipt efni þannig að ég renn til á gólfinu í mátunarklefanum, dett á vegginn í mátunarklefanum sem var „basically“ þil en ekki veggur.

Þetta eru svona fimm mátunarklefar, fastir saman. Ég leggst á vegginn sem er eiginlega bara þil og mátunarklefarnir koma allir með,“ útskýrði Siggi hlæjandi og bætti við að fólk hafi verið að máta föt í klefunum á meðan á þessu stóð.

„Ég leggst og „búmm“. Rosaleg læti og þeir leggjast nánast allir á hliðina en svo renn ég á gólfið og undir tjaldið á mátunarklefanum og fram á gólfið og ligg með hjólabuxurnar á hælunum á brókinni fyrir framan alla verslunina og á meðan skelfur mátunarklefinn eftir alla spennuna,“ sagði hann og uppskar mikinn hlátur.

„Ég segi bara: Varið ykkur ef þið ætlið að fara að máta hjólafatnað og ég sendi fólki sem var í mátunarklefanum þennan laugardag í Sport 24 afsökunarbeiðni. Ég vona að þið jafnið ykkur á þessu.

Hefði ég verið nokkrum sekúndum lengur á veggnum þá hefði ég tekið mátundarklefana niður og fólkið sömuleiðis.“

Hlustaðu á Sigga Gunnars segja söguna af atvikinu í spilaranum hér að neðan.

Taktu skemmtilegri leiðina heim með Loga Bergmann og Sigga Gunnars virka daga frá 16 til 18.

 

mbl.is