Borgaði sig að læra þetta bara sjálfur

„Á einhverjum tímapunkti óx það mér mjög í augum hvað …
„Á einhverjum tímapunkti óx það mér mjög í augum hvað iðnaðarmenn kostuðu mikið, eins frábærir og þeir eru. Ég hugsaði, ég held að það borgi sig bara að ég læri þetta sjálfur,“ sagði Bergsteinn Sigurðsson fjölmiðlamaður sem var að ljúka annarri önn í húsasmíði. Ljósmynd/Logi Bergmann

„Ég er ekki að láta gamlan draum rætast. Það má segja að ég hafi vaknað við vondan draum,“ sagði fjölmiðlamaðurinn Bergsteinn Sigurðsson sem mætti í Síðdegisþáttinn í gær og ræddi um nám sitt í húsasmíði sem hann hóf á síðasta ári.

„Við hjónin keyptum íbúð fyrir tveimur til þremur árum. Æðislega íbúð í Vogahverfinu en það þurfti að taka dálítið rækilega til hendinni þar og við erum búin að vera í því verkefni,“ sagði hann. „Á einhverjum tímapunkti óx það mér mjög í augum hvað iðnaðarmenn kostuðu mikið, eins frábærir og þeir eru. Ég hugsaði, ég held að það borgi sig bara að ég læri þetta sjálfur,“ bætti hann við. 

Sagðist Bergsteinn aldrei hafa unnið mikið í höndunum fyrr en nú og kvaðst nánast engan grunn hafa í smíði. 

„Það var aldrei hringt í mig þegar einhvern vantaði ráð um parketlögn eða eitthvað slíkt. Ég var örugglega mjög neðarlega á listanum hjá fólki. En nú allt í einu er stundum hringt í mig og ég beðinn um ráð,“ sagði hann.

Aðspurður sagðist hann alls ekki sjá eftir því að hafa farið í námið þrátt fyrir að það væri langt út fyrir þægindarammann og væri mikil vinna.

„Þetta er hrikalega gaman. [Þetta] voru þrjú kvöld í viku í vetur áður en Covid skall á og það var vissulega svolítið mikið með fullri vinnu og fjölskyldulífi og öllu því en þetta líður svo fljótt,“ sagði Bergsteinn og bætti við að hann hlakkaði mikið til að halda áfram í haust. 

„Ég held ótrauður áfram.“

Hlustaðu á allt viðtalið við Bergstein í spilaranum hér að neðan.

mbl.is