Framfleytir fjölskyldunni með áfengisneyslu

„Við síum vodkann í gegnum hraunið, það er engin lygi. …
„Við síum vodkann í gegnum hraunið, það er engin lygi. Það er bara gert þannig.“ Samsett ljósmynd: Aðsend/mbl.is/Golli

Þórður Sigurðsson segist framfleyta börnunum sínum og fjölskyldu með áfengisneyslu en hann tekur einnig vaktir sem lögreglu- og slökkviliðsmaður en það starf er að sögn hálfgert tómstundagaman. Hans helsta starf er að framleiða Reyka vodka sem hefur slegið í gegn víða um heim en framleiðslan skreið, að sögn Þórðar, nálægt tveimur milljónum lítra í ársframleiðslu í fyrra. 

Hann mætti í hjólhýsið til Loga Bergmanns og Sigga Gunnars í Borgarnesi á föstudag og spjallaði um framleiðsluna sem fer öll fram í Borgarbyggð.

„Ástæðan fyrir því að við erum hér að framleiða Reyka vodka er staðsetningin á okkur hérna. Við erum nálægt mjög góðu vatni. Við notum hitaveituvatn við eiminguna eða „Geothermal energy“. Við erum mjög nálægt Deildartunguhver sem er einhver vatnsmesti hver í Evrópu. Og svo er það hraunið. Við síum vodkann í gegnum hraunið, það er engin lygi. Það er bara gert þannig,“ útskýrði Þórður. Sagði hann að vodkinn, sem kemur út úr framleiðslutækjunum með um 92% alkóhólstyrk áður en styrkurinn er lækkaður, væri afar gjarn á að grípa í sig mengun og vonda lykt. 

„Það er nú sennilega ástæðan fyrir því að við erum hérna en ekki, með fullri virðingu fyrir Reykjavík, þar,“ sagði hann.

Hlustaðu á allt viðtalið við Þórð beint úr Borgarbyggð í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist