„Bara sorglegt að horfa á þetta“

„Félagi minn sem er með mér í Tenerife ferðum, hann …
„Félagi minn sem er með mér í Tenerife ferðum, hann er enn þá úti og við höfum búið þannig í haginn að við gátum haft hann á launum þar í sumar. Hann er alltaf að senda mér myndir og það er bara sorglegt að horfa á þetta. Það er það eina sem ég get sagt. Það er sorglegt,“ sagði Svali. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er æðislegt að koma, ég hef ekki komið síðan í ágúst 2018 en mér finnst mjög leiðinlegt að það hafi farið eins og það fór,“ sagði Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali eins og hann er oftast kallaður, en hann er nýkominn aftur til Íslands frá Tenerife þar sem hann býr og starfar. Svali mætti í Síðdegisþáttinn á dögunum, borðaði tapas og drakk sangría með Loga Bergmann og Sigga Gunnars og ræddi þar um ástandið á Tenerife og ferðamennskuna á Íslandi. 

Sagðist hann aðspurður vera sorgmæddur yfir ástandinu á Tenerife sem er að sögn afar slæmt fyrir mjög marga enda lifir eyjan nánast alfarið á ferðamennsku sem er ein af þeim atvinnugreinum sem hefur farið verst út úr kórónuveirufaraldrinum.

„Ég verð að viðurkenna það ef ég á að vera alveg heiðarlegur. Þá fannst mér þetta pínu leiðinlegt,“ sagði hann. „Félagi minn sem er með mér í Tenerife ferðum, hann er enn þá úti og við höfum búið þannig í haginn að við gátum haft hann á launum þar í sumar. Hann er alltaf að senda mér myndir og það er bara sorglegt að horfa á þetta. Það er eina sem ég get sagt. Það er sorglegt,“ sagði Svali. 

„Góður vinur minn á veitingastað þarna úti. Á fjórðu viku þá hringir stúlka sem er að vinna hjá honum. Þessi stúlka á tvö börn, er einstæð og eins og svo margir aðrir þá vann hún svokallað vikulegt „pay“ og fékk borgað vikulega og alltaf í reiðufé. Það er annað hagkerfi þarna, alltaf borgað í reiðufé í hverri viku því þannig voru margir staðirnir farnir að rúlla.

Hún hringir bara og segir: „Staðan er þannig að ég get ekki keypt brauðsneið. Ég á ekki fyrir brauðsneið,“ útskýrði hann og bætti við að þessi stúlka og fjölskylda hennar gengi ekki fyrir hjá hjálparsamtökum þar sem þau væru ekki inni í kerfinu.

„Þetta eru ekki bara nokkrir heldur eru þetta þúsundir manna,“ sagði hann en hann segir afar algengt að fólk sé að vinna svart.

„Þetta er raunverulega gott því nú vakna menn og sjá að nú þurfum við að gera þetta aðeins öðruvísi þegar við förum af stað aftur. Og þetta er ekki eingöngu bundið við Kanaríeyjar heldur er þetta alls staðar þar sem ferðamaðurinn ræður ríkjum,“ sagði hann. „Það verða miklar breytingar.“

Svali var bjartsýnn á að Íslendingar yrðu mjög fljótir að gleyma því að verða hræddir að ferðast.

„Ferðakjarkurinn kemur fyrr en við höldum akkúrat í dag. En ég held að það sé mjög raunhæft að ef flest landamæri opnast um miðjan ágúst þá verðum við farin af stað þá.“

Sjáðu allt viðtalið við Svala í spilaranum hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina