„Skrítið að sjá borgina svona“

Skjáskot af Facebook/Unsplash

„Það er skrítið að sjá borgina svona. Þetta er mjög leiðinlegt og ömurlegt ástand en samt er fallegt að labba um borgina þegar hún er svona róleg. Loftið breyttist sérstaklega, lyktin af borginni,“ segir tónlistarmaðurinn Halldór Már, sem búið hefur í Barselóna á Spáni síðastliðin 27 ár. Þar býr hann ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonu og þremur dætrum. Hann spjallaði við Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum um tónlistina og ástandið á Spáni um þessar mundir.

Halldór starfar bæði sem tónlistarmaður og tónlistarkennari en hann stofnaði tónlistarskólann Ars Viva fyrir tveimur árum. Sagði hann að skólinn hefði gengið afar vel fyrir kórónuveirufaraldurinn en síðan hann gekk yfir heimsbyggðina hefur skólinn verið lokaður.

Halldór sagði að reglur í bæði Barselóna og Madríd væru mun strangari en annars staðar á Spáni enda um stórar og þéttbýlar borgir að ræða.

Fjölskylda Halldórs er afar tónlistarsinnuð, enda kynntist Halldór eiginkonu sinni í tónlistarskóla. Saman gefa þau út myndbönd þar sem þau syngja öll saman og spila ýmis lög en nýjasta myndband fjölskyldunnar er að finna hér að neðan. Fleiri myndbönd er að finna á Facebook-síðu Halldórs. 

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Halldór í spialaranum hér að neðan. 

mbl.is