Skemmtileg heimild um samfélagið

Eiríkur Jónsson og félagar hafa verið duglegir að ferðast um …
Eiríkur Jónsson og félagar hafa verið duglegir að ferðast um Borgarbyggðarsvæðið með upptökubúnað sinn og tekið tali bændur, athafnafólk og ýmsar lykilmanneskjur. „Útkoman er stuttir mannlífsþættir með innlitum á áhugaverða staði og viðburði,“ útskýrir Eiríkur. Skjáskot af Youtube

Verkefni sem upphaflega snerist um að gera grínmyndbönd fyrir þorrablót körfuboltafélagsins Skallagríms hefur á undanförnum misserum þróast út í metnaðarfulla þáttagerð þar sem kafað er ofan í sögu og mannlíf Borgarness og nágrennis.

Eiríkur Jónsson, formaður Kvikmyndafjelags Borgarfjarðar, segir að löng sé fyrir því að framleiða árlegt skaup fyrir Þorrablótið, enda einn af hápunktum skemmtanadagatals íbúa Borgarbyggðar. „Fyrir rúmu ári síðan var ég fenginn inn í þetta, og varð úr að stofna Kvikmyndafjelagið í kringum skaupið, en um leið hefja framleiðslu stuttra og fræðandi þátta – lítilla mola – sem myndu færa heimamönnum jákvæðar fréttir og fróðleik úr samfélaginu.“

Eiríkur og félagar hafa verið duglegir að ferðast um svæðið með upptökubúnað sinn og tekið tali bændur, athafnafólk og ýmsar lykilmanneskjur. „Útkoman er stuttir mannlífsþættir með innlitum á áhugaverða staði og viðburði,“ útskýrir Eiríkur en horfa má á afraksturinn á slóðinni Kvikborg.is sem vísar yfir á YouTube-síðu Kvikmyndafjelagsins. Eru myndskeiðin núna orðin meira en þrjátíu talsins og spanna allt frá viðtölum við unga íþróttafólkið í bænum og sagnfræðilegum fróðleik um kennileiti á svæðinu, yfir í upptökur af guðsþjónustum og tónleikum.

Eiríkur er sjálfur aðkomumaður í Borgarbyggð en hann fluttist þangað árið 2007 með þáverandi eiginkonu sinni og þremur börnum. Hann starfar við hugbúnaðarsmíði fyrir Origo, hefur unnið fjarvinnu undanfarin þrettán ár, og unir sér afskaplega vel í Borgarnesi. „Ég fann það strax hvernig samfélagið tók utan um okkur, og að hér væri góður staður til að ala upp börn og láta fara vel um sig.“

Í gegnum þáttagerðina hjá Kvikmyndafjelaginu hefur Eiríkur uppgötvað nýjar hliðar á nærumhverfi sínu. „Það er mikils virði að finna fólk hér í bænum sem þekkir söguna vel og hefur mikilvægum fróðleik að miðla. Í því felst líka ákveðin virðing við þá sem hér hafa búið, að skrásetja söguna með þessum hætti, og vonandi miðla til þeirra sem munu búa hér löngu seinna.“ 

Síðasta kvöldmolann má sjá í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is