Fylla heitu pottana með hvera- og jökulvatni

Heilsulindin Krauma við Deildartunguhver.
Heilsulindin Krauma við Deildartunguhver.

Heilsulindin Krauma er í uppáhaldi hjá bæði gestum og heimamönnum í Borgarbyggð. Um er að ræða merkilegt verkefni sem nýtir sjóðandi heitt vatn sem fengið er úr Deildartunguhver og kælir það niður með ísköldu vatni undan öxlum Oks sem, eins og lesendur vita, var allt þar til nýlega minnsti jökull Íslands.

„Við blöndum heita og kalda vatninu saman og bjóðum upp á fimm heita potta og einn kaldan. Heitu pottarnir eru misheitir, frá 37 °C upp í 43 °C. Við blöndum ekki klór við vatnið heldur höfum mikið gegnumstreymi til að halda pottunum hreinum. Þá er vatnið steinefnaríkt og þykir mörgum að heimsókn í Krauma geri húðinni gott,“ útskýrir Jónas Friðrik Hjartarson, framkvæmdastjóri heilsulindarinnar. „Til viðbótar bjóðum við upp á tvö vatnsgufuböð og hvíldarherbergi þar sem eldur logar í arni og hægt er að slaka á við róandi tónlist.“

Jónas Friðrik Hjartarson, framkvæmdastjóri heilsulindarinnar Kraumu.
Jónas Friðrik Hjartarson, framkvæmdastjóri heilsulindarinnar Kraumu.

Ekki er nóg með að Krauma bjóði upp á nærandi og róandi stund fyrir líkama og sál heldur þykir það upplifun fyrir bragðlaukana að heimsækja veitingastaðinn sem þar er rekinn. „Þar leggjum við ríka áherslu á gott samband við bændurna á svæðinu og reynum að nota eins mikið og við getum af hráefni úr héraði, og þá það sem er ferskast hverju sinni. Við vinnum líka með ýmsum matvælaframleiðendum á svæðinu, seljum t.d. handverksbjór frá Steðja og lúxusís frá ísgerðinni Laufey.“

mbl.is/Árni Sæberg

Eins og öðrum baðstöðum þurfti að loka Kraumu tímabundið vegna smitvarnaaðgerða í kórónuveirufaraldri en starfsfólkið þar vinnur núna hörðum höndum að því að hefja rekstur að nýju 29. maí. Hefur heilsulindin verið þrifin hátt og lágt og innleiddir verkferlar sem fullnægja ýtrustu hollustukröfum. „Ef þess þarf getum við stýrt því hversu margir eru í heilsulindinni hverju sinni en gestir ættu að geta viðhaldið hæfilegum aðskilnaði ofan í pottunum og í búningsklefunum. Þá höfum við búið þannig um veitingastaðinn að góð fjarlægð er á milli matargesta og vitaskuld hægt að snæða utandyra ef veður leyfir.“ 

Jónas Friðrik mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 á dögunum en horfa má á viðtalið við hann í spilaranum hér að neðan. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »