Fagni útskriftinni þrátt fyrir veiruna

Dóra Júlía hrósar útskriftarnemum sérstaklega í ljósa punkti dagsins og …
Dóra Júlía hrósar útskriftarnemum sérstaklega í ljósa punkti dagsins og segir frá því að faðir nokkur hafi gert sér-útskriftarathöfn fyrir dóttur sína eftir að aðalathöfninni var aflýst vegna kórónuveirufaraldurs. Ljósmynd: Samsett Twitter/@JeremypierreFOX mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Hrós dagsins fá allir útskriftarnemar vorsins 2020. Ég var einmitt að rekast á gömlu MH-stúdentsmyndina mína og trúi því varla að það séu átta ár síðan. Tíminn líður náttúrulega svo skringilega að það er engin leið að átta sig á honum, en þó er mikilvægt að gleyma því aldrei hvað tíminn er verðmætur. Ég man svo skýrt eftir útskriftardeginum mínum og þessari mögnuðu frelsistilfinningu sem því fylgdi að vera að útskrifast úr menntaskóla. Allur heimurinn blasti við manni og öll framtíðin var fram undan.

Mér fannst ég að mörgu leyti ósigrandi og hlakkaði mikið til að takast á við lífið og fullorðinstilveruna. Mikið óskaplega hef ég lært mikið á þessum 8 árum, gert alveg hreint óteljandi mistök og misstigið mig hér og þar, dottið niður og svo lært að rísa aftur upp. Það er nefnilega alveg ómetanlegt að fá að læra af lífinu, þroskast og styrkjast. Það hlýtur að vera örlítið svekkjandi fyrir útskriftaráfanga 2020 að fá ekki að fagna þessu almennilega, því þetta er stór áfangi í ykkar lífi og þetta er svo sannarlega ykkar stund. Ég vona samt innilega að þið takið góðan tíma til þess að vera stolt af ykkur, klappið ykkur á bakið og fagnið með ykkar nánustu.

Núna um daginn rakst ég á svo fallega frétt þar sem faðir einnar útskriftardömu í Bandaríkjunum gerði sér lítið fyrir og byggði svið fyrir utan heimili þeirra sem líktist því sviði sem annars hefði verið á útskriftardaginn. Hann setti upp vegg með nafni skólans þar sem á stóð stórum stöfum "Class of 2020" ásamt því að koma pontu fyrir uppi á sviðinu. Þar stóð hann í prófessora-kyrtli, kallaði upp nafn dóttur sinnar og afhenti henni útskriftarskírteinið. Vinir og vandamenn keyrðu svo fram hjá og kölluðu hamingjuóskir til stúlkunnar, sem var hæstánægð og hrærð með daginn.

Það er svo skemmtilegt að sjá hvað fólk getur verið lausnamiðað og sniðugt. Dagurinn verður kannski bara í kjölfarið einstakari en ella. Það þarf alls ekki að hafa jafn mikið fyrir því, en gerið eitthvað við daginn sem veitir ykkur gleði og leyfið ykkur að njóta. Farið svo óhrædd inn í framtíðina, verið tilbúin að læra af óvissunni og það sem allra mikilvægast er er að muna að hafa óbilandi trú á því hvað þið eruð magnaðir einstaklingar!

DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í samstarfi við Íslatte.

mbl.is

#taktubetrimyndir