Snúa bökum saman

Börn fagna þjóðhátíðardreginum í Skallagrímsgarði á þessari mynd úr safni. …
Börn fagna þjóðhátíðardreginum í Skallagrímsgarði á þessari mynd úr safni. Kórónuveiran gæti leitt til að íbúum fjölgi á svæðinu. Eggert Jóhannesson

Lífið í Borgarbyggð er aftur að komast í eðlilegt horf og segir Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri að íbúar og samfélagið í heild sinni sé byrjað að taka við sér eftir vægast sagt erfiða tíma. Tannhjól atvinnulífsins eru farin að snúast á ný og greina má merki þess að fyrirtækin á svæðinu séu að sækja í sig veðrið með hækkandi sól. „Það er ánægjulegt að fyrirtæki í sveitarfélaginu sé að auglýsa eftir starfsfólki en það er til að mynda vöntun á starfskröftum hjá hótelunum og veitingastöðunum auk þess að verktakar hafa auglýst laus störf.“

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitastjóri Borgarbyggðar segir íbúa og samfélagið í …
Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitastjóri Borgarbyggðar segir íbúa og samfélagið í heild sinni vera byrjað að taka við sér eftir vægast sagt erfiða tíma. Samsett Ljósmynd mbl.is/Eggert

Að sögn Þórdísar hefur kórónuveirufaraldurinn vissulega valdið fyrirtækjunum á svæðinu tjóni líkt og gerst hefur annars staðar á landinu. „Við getum reiknað með að það séu krefjandi tímar framundan og við erum að bregðast við með margvíslegum hætti til að minnka efnahagslegu áhrifin sem hafa orðið og verða vegna kórónuveiru. Fyrr í mánuðinum hélt sveitarfélagið fund með fulltrúum fyrirtækja á svæðinu til að ræða stöðuna og skoða hvaða möguleikar séu fyrir hendi til að veita aðstoð sem stuðli að sem bestri viðspyrnu fyrir Borgarbyggð,“ segir Þórdís. „Á þeim fundi kom fram að það þyrfti að huga að ferðaþjónustunni og það er ánægjulegt að segja frá því að fyrirtækin eru nú þegar farin að snúa bökum saman, samþætta þjónustu sína og bjóða ferðamönnum upp á hagstæða heildarpakka, og þannig snúa vörn í sókn. Þó reikna megi með að bið verði eftir fjölgun erlendra ferðamanna þá er það okkar von að íslenskir ferðamenn verði duglegir að heimsækja Borgarbyggð enda svæði þar sem margt er að sjá og gera og margar óviðjafnanlegar náttúruperlur.“

Taki vinstri beygjuna

Þó Borgarbyggð sé nánast í túnfæti höfuðborgarsvæðisins, þá eiga margir borgarbúar eftir að uppgötva allt það sem svæðið hefur upp á að bjóða. Þórdís segir að bara í Borgarnesi, steinsnar frá þjóðvegasjoppunni vinsælu Hyrnunni, sé að finna sælureiti og söfn sem allt of margir vita ekki af, og í uppsveitum Borgarfjarðar og Mýrum má finna ótrúleg útivistar- og náttúrusvæði sem gera fólk agndofa. „Allflestir aka í gegnum Borgarnes án þess að taka vinstri beygjuna og skoða það sem að mínu mati er eitt fallegasta bæjarstæði á landinu, með stöðum eins og Bjössaróló, Skallagrímsgarði, virkilega góðum veitingastöðum, Safnahúsinu og Landnámssetrinu með sínum merkilegu sýningum. Síðan er líka hægt að beygja til hægri við Hafnarfjallið og njóta þess sem Borgarfjörður býður upp á eins og til dæmis Hvanneyri, Reykholtsdal og Norðurdalsána.“

Verður líf á svæðinu í sumar og segir Þórdís að viðburðahaldarar í Borgarbyggð ætli ekki að slá slöku við. „Verið er að skipuleggja hátíðir og listviðburði sumarsins í sveitarfélaginu og eru landsmenn hvattir til þess að koma á hátíðir eins og Brákarhátíð, Hvanneyrahátíð, Reykholtshátíð og listahátíðina Plan B, að ógleymdri tónlistardagskrá í Skálholti.“

Kannski fjölgar íbúum eftir faraldurinn

Þórdís er spennt fyrir framtíð Borgarbyggðar en hún telur að það það kunni vel að gerast að íbúum fjölgi í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Þannig hafi faraldurinn minnt marga á kosti þess að aftengjast látum og lífsgæðakapphlaupi borgarlífsins og eiga í staðinn meiri gæðastundir með fjölskyldunni, eða njóta útivistar í fagurri náttúru. Hún minnir á að á mörgum vinnustöðum hafi komið í ljós að óhætt er að veita meira svigrúm fyrir fjarvinnu, og upplagt fyrir þá sem vilja komast nær náttúrunni og upplifa kosti þess að búa í fámennu og samheldnu samfélagi, að skoða möguleikann á að setjast að á svæðum eins og Borgarbyggð. „Það er mikil þjónusta í sveitarfélaginu og stutt að sækja til höfuðborgarsvæðisins þá þjónustu sem ekki er til staðar. Húsnæðiskostnaðurinn er enn lægri en á höfuðborgasvæðinu og mikil uppbygging í sjónmáli,“ segir Þórdís sem ólst upp í Borgarnesi en fluttist til Reykjavíkur þegar hún var unglingur og bjó svo um langt skeið á Vestfjörðum með fjölskyldu sinni. „Það sem ég fann hvað greinilegast þegar við fluttum frá höfuðborginni var að allt í einu bættust tveir tímar við sólarhringinn, því vegalengdir urðu styttri og ekki sama þörf fyrir að eyða drjúgum tíma daglega í skutl og útréttingar. Svo er annar og rólegri bragur á samfélaginu og minna lífsgæðakapphlaup.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »