„Erum komin alltof langt til að hætta“

„Þetta er mikil óvissa og auðvitað hugsar maður um að …
„Þetta er mikil óvissa og auðvitað hugsar maður um að maður fái kannski ekki vinnu og hvað það væri leiðinlegt en ég held við séum bara að reyna að vera jákvæð,“ segir Alex Ívar atvinnuflugmannsnemi. Ljósmynd/Samsett Facebook/Úr safni

„Við erum bara að bíða. Þetta er auðvitað draumur margra að fljúga og það er gaman að fljúga bara í skólanum. Þetta snýst oft ekki um peninga fyrir flugmenn heldur það að fá að fljúga,“ segir Alex Ívar Ívarsson atvinnuflugmannsnemi í samtali við K100.is en hann er einn þeirra 11 íslensku nema sem komust inn á flugnámsbraut á vegum Icelandair (cadet program) til að stunda atvinnuflugmannsnám í flugskólanum L3 Harris í lok árs 2018. Alex Ívar staðfestir að atvinnuflugmannsnemar séu nú í mikilli óvissu vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast í flugheiminum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. 

Icelandair flutti fimm nemendur frá Cranfield í Bretlandi þar sem hluti námsins fer fram, til Íslands 26. mars, nokkrum dögum eftir að útgöngubann skall á í Bretlandi. Þeir hafa síðan beðið milli vonar og ótta eftir fréttum um það hvenær námið hefst að nýju.

Mikil óvissa um framhaldið

„Þetta er mikil óvissa og auðvitað hugsar maður um að maður fái kannski ekki vinnu og hvað það væri leiðinlegt en ég held við séum bara að reyna að vera jákvæð. Flugbransinn er alltaf mjög upp og niður og stundum vantar flugmenn og stundum ekki, eins og núna. Stundum eru góð laun og stundum ekki. En þegar allt kemur til alls þá er bara svo gaman að fá að fljúga,“ segir hann. Alex Ívar bætir við að hann finni ekki fyrir því að nemendur séu í uppnámi vegna ástandsins en að flestir ætli að halda áfram með námið og bíði spenntir eftir að fá að byrja aftur. 

Námið, sem hófst á Nýja-Sjálandi 19. nóvember 2018, hefur þegar tekið lengri tíma en áætlað var upphaflega en stefnt var að því að náminu myndi ljúka eftir 74 vikur. Nú eru þó liðnar rúmlega 78 vikur og enn langt í land.

„Við viljum bara halda áfram og klára þetta nám vitandi að það mun örugglega taka Icelandair svona 2-3 ár að komast á venjulegt ról. Við erum náttúrulega komin allt of langt til að hætta, maður myndi ekki hætta út af þessu. Maður klárar þetta bara,“ sagði Alex Ívar.  „Svo þarf maður bara að bíða og sjá hvað gerist.“

mbl.is