„Alltaf gaman að koma aftur“

Borgnesingurinn Kristín Sif, einn þáttastjórnanda morgunþáttarins Ísland vaknar á K100 …
Borgnesingurinn Kristín Sif, einn þáttastjórnanda morgunþáttarins Ísland vaknar á K100 hlakkar mikið til að vera með útsendingu frá heimabænum á morgun. Samsett Ljósmynd mbl.is/Eggert

Útvarpsstöðin K100 ætlar að kynnast landinu betur í sumar og kynna þá stórkostlegu staði sem eru í boði fyrir landsmenn innanlands í sumar. Fyrsti áfangastaður stöðvarinnar verður Borgarbyggð. Öll dagskrá og fréttir stöðvarinnar verða í beinni útsendingu frá Borgarnesi á föstudaginn, 22. maí.

Morgunþáttur stöðvarinnar, Ísland vaknar, með þau Ásgeir Pál, Jón Axel og Borgnesinginn Kristínu Sif, hefst stundvíslega kl. sex að morgni. Auðun Georg miðlar fréttum frá því helsta sem er að gerast í sveitarfélaginu og Síðdegisþáttur K100 með þeim Loga Bergmann og Sigga Gunnars fjallar um fjölbreytt mannlíf og það sem gerir Borgarbyggð að áhugaverðum stað til að heimsækja, starfa á og búa.

Skemmtilegasta bæjarstæðið

Skemmtilegur viðburður verður í boði á föstudaginn í tilefni af útsendingu K100, en þá ætlar Helo.is að bjóða upp á útsýnisflug með þyrlu. Sex farþegar komast í hverri ferð. Flogið verður frá Borgarnesflugvelli frá klukkan 16:00 og kostar 10 þúsund krónur á mann.

„Það er alltaf gaman að koma aftur í Borgarnes sem mér finnst vera fallegasta bæjarstæði á landinu og svo er svo skemmtilegt fólk þar,“ segir Borgnesingurinn Kristín Sif í samtali við Morgunblaðið og K100.is.

Fjöldi gesta frá Borgarbyggð

Hún staðfestir að fjöldi skemmtilegra gesta frá Borgarbyggð muni koma fram í þáttunum en meðal þeirra sem mæta í Ísland vaknar eru uppistandarinn Iddi Biddi, Orri Sveinn Jónsson trúbador og Guðrún Daníelsdóttir athafnakona sem Kristín segir að sé ein skemmtilegasta kona landsins.

mbl.is